Erlent

Evrópuríki samsek í pyntingum CIA

Kjartan Kjartansson skrifar
Mannréttindadómstóll Evrópu í Strasbourg.
Mannréttindadómstóll Evrópu í Strasbourg. Vísir/EPA
Mannréttindadómstóll Evrópu komst að þeirri niðurstöðu í dag að yfirvöld í Litháen og Rúmeníu hefðu brotið á réttindum tveggja manna sem grunaðir voru um að vera liðsmenn hryðjuverkasamtakanna al-Qaeda með því að leyfa bandarísku leyniþjónustunni CIA að pynta þá.

Mennirnir tveir voru teknir höndum eftir hryðjuverkaárásirnar í New York 11. september árið 2001. Áður en þeir voru vistaðir í Guantánamo-fangelsinu á Kúbu þar sem þeir dvelja ennþá flutti CIA þá í leynifangelsi í Litháen og Rúmeníu, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Yfirvöld í ríkjunum tveimur voru dæmd til að greiða mönnunum tveimur 100.000 evrur hvorum. Í dómi Mannréttindadómstólsins segir að annar mannanna hafi sætt „ómannúðlegri meðferð...sem Rúmenía gerði mögulega með því að vinna með CIA“. Dómararnir höfðu sömu orð um Litháen.

Bæði ríkin gerðu CIA einnig kleift að flytja fangana í önnur fangelsi og settu þá þannig í alvarlega hættu á frekari illri meðferð.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.