Erlent

Fjórir Rússar féllu í átökum við ISIS-liða

Samúel Karl Ólason skrifar
Vladimir Putin ræðir við hermenn í Sýrlandi.
Vladimir Putin ræðir við hermenn í Sýrlandi. Vísir/GETTY

Varnarmálaráðuneyti Rússlands sagði í dag að fjórir rússneskir hermenn hefðu fallið í átökum við vígamenn Íslamska ríkisins í Sýrlandi. Mennirnir munu hafa verið hernaðarráðgjafar og studdu þeir aðgerðir stjórnarhers Sýrlands í Deir ez-Zor í austurhluta Sýrlands. Ekki liggur fyrir hvenær mennirnir féllu en ISIS-liðar sögðust á föstudaginn hafa fellt fimmtán sýrlenska og rússneska hermenn sem ferðuðust í bílalest nærri bænum al-Mayadin.

Þá segjast ISIS-liðar hafa eytt fimm flutningsbílum, brynvörðum farartækjum og skemmt skotvörpu (e. Rocket launcher). Ekki liggur fyrir hvort að ISIS-liðar hafi verið að vísa til sama atviks og Varnarmálaráðuneyti Rússlands.

Í tilkynningu ráðuneytisins segir að umrædd árás hafi átt sér stað að nóttu til og að tveir hermenn hafi fallið á staðnum og að fimm hafi særst. Tveir hinna særðu dóu á sjúkrahúsi. Þeir tveir sem féllu á staðnum eru sagðir hafa stýrt skotvörpu. Átökin munu hafa staðið yfir í nærri því klukkustund.

Guardian hefur eftir Syrian Observatory for Human Rights, eftirlitssamtökum sem reka umfangsmikið net heimildarmanna í Sýrlandi, að á undanförnum fimm dögum hafi minnst 76 Assad-liðar fallið í átökum í Deir ez-Zor og minnst 25 ISIS-liðar.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.