Umfjöllun og viðtöl: Grindavík - Selfoss 1-1 | Selfoss náði í stig með marki í lokin

Smári Jökull Jónsson skrifar
Grindavíkurkonur fagna.
Grindavíkurkonur fagna. mynd/umfg
Selfoss og Grindavík skildu jöfn í rokleik suður með sjó í 5.umferð Pepsi-deildar kvenna í kvöld. Lokatölur voru 1-1 eftir jöfnunarmark gestanna undir lokin. Bæði lið eru því með fjögur stig eftir fimm umferðir.

Mikill vindur setti svip sinn á leikinn í kvöld. Selfoss ógnaði meira í fyrri hálfleik með vindinn í bakið og áttu þá nokkur skot að marki sem markvörður heimamanna, Viviane Domingues, varði oftast nokkuð auðveldlega.

Staðan í hálfleik var 0-0 en fljótlega í síðari hálfleik komust heimastúlkur yfir. Ísabel Jasmín Almarsdóttir tók þá aukaspyrnu lengst utan af velli, boltinn skoppaði í teignum og endaði í fjærhorninu.

Eftir markið voru það Selfyssinar sem höfðu yfirhöndina. Heimastúlkur áttu þó sín færi en áttu erfitt með að halda boltanum með vindinn í bakið.

Á 85.mínútu tókst svo gestunum að jafna. Magdalena Reimus tók þá hornspyrnu sem datt fyrir fætur varamannsins Alexis Kiehl sem náði að koma boltanum yfir línuna við mikinn fögnuð gestanna.

Á síðustu mínútu uppbótartíma munaði svo litlu að gestirnir tækju stigin þrjú en Grindvíkingar björguðu þá á línu eftir skalla frá Evu Lind Elíasdóttur. Lokatölur því 1-1 og liðin skipta því stigunum á milli sín.

Af hverju varð jafntefli?

Selfyssingar náðu ekki að ógna nógu mikið með vindinn í bakið en heimastúlkur voru fljótar að nýta sér hann þegar Ísabel skoraði en þá hjálpaði rokið til.

Gestirnir spiluðu hins vegar vel í síðari hálfleik og innkoma varamannanna breytti miklu. Þær jöfnuðu sanngjarnt. Grindvíkingar bökkuðu langt aftur til að freista þess að halda í sigurinn og virtust þar að auki orðnar verulega þreyttar á lokamínútunum.

Þessar stóðu upp úr:

Hjá Grindavík átti fyrirliðinn og markaskorarinn, Ísabel Jasmín, fínan leik á miðjunni og barðist fyrir öllum boltum og Steffi Hardy var ágæt í vörninni. Viviane í markinu var traust og varði þá bolta sem hún átti að taka.

Hjá Selfyssingum var Sophie Maierhofer öflug á miðjunni og varamenn liðsins komu sterkir inn og þá sérstaklega Anna María Friðgeirsdóttir sem ógnaði mikið á vinstri kantinum.

Hvað gekk illa?

Liðunum gekk illa að spila með vindinn í bakið og héldu boltanum ekki vel. Aðstæðurnar voru ekki öfundsverðar og gerðu leikmönnum erfitt fyrir.

Hvað gerist næst?

Bæði lið eiga leik í bikarnum næst, Selfoss mætir þá Fjölni og Grindavík heldur austur á firði þar sem þær mæta Fjarðabyggð/Hetti/Leikni. Þar á eftir kemur tæplega tveggja vikna hlé á deildinni vegna landsleikja.

Ray Anthony: Vorum óskynsamar
Ray ásamt aðstoðarmanni sínum Nihad HasecicFacebooksíða Grindavíkur
„Hann getur verið svekktur en það vorum við sem vorum að leiða 1-0 þegar nokkrar mínútur voru eftir. Svo fáum við á okkur mark úr föstu leikatriði sem við höfum unnið mikið en ég sá ekki alveg hvað gerðist," sagði Ray Anthony Jónsson þjálfari Grindavíkur eftir jafnteflið gegn Selfyssingum í kvöld.

"Ég er líka ósáttur með að hafa tapað þessum tveimur stigum. Eitt stig er kannski sanngjarnt."

Grindavík komst yfir í upphafi síðari hálfleiks en Selfoss jafnaði undir lokin og fékk færi til að taka öll stigin eftir það en þá virtust leikmenn Grindavíkur vera orðnar mjög þreyttar.

„Þær voru kannski ekki alveg sprungnar því þær tóku þarna einhvern sprett alveg í lokin en ég hugsa að þetta hafi verið svolítið stressandi að vera 1-0 yfir. Svo vorum við óskynsamar að beita of mörgum löngum boltum með vindinum.“

Framundan er bikarleikur og svo pása í deildinni sem Grindvíkingar ætla að nýta sér vel.

„Nú er bikarleikur á föstudaginn á Egilsstöðum og svo förum við til Spánar í fríinu í sex daga ferð og komum svo til baka gegn HK/Víkingi. Við komum saman fyrir þremur mánuðum og ákváðum þá að nýta okkur þessa pásu til að endurskipuleggja og byrja af krafti eftir það,“ sagði Ray að lokum.

Alfreð: Hefðum getað klárað þetta
Alfreð Jóhannsson er þjálfari kvennaliðs Selfoss.UMFS
„Nei, ég er alls ekki sáttur. Við vorum miklu betra liðið í seinni hálfleik og stelpurnar gerðu vel í að halda boltanum og við fengum marga möguleika. Það vantaði aðeins á síðasta þriðjungi en við sköpuðum urmul af færum,“ sagði Alfreð Jóhannsson þjálfari Selfoss eftir jafnteflið í Grindavík í kvöld.

„Við náðum marki í lokin og fengum svo færi til að skora eftir það. Ég er ekki sáttur með stig.“

Selfyssingum gekk vel að spila með vindinn í fangið og fengu dauðafæri undir lokin til að stela sigrinum.

„Auðvitað er maður ekki raunsær eftir svona leiki en mér fannst við betri heilt yfir. Við hefðum getað klárað þetta, ekki stolið þessu, því mér hefði fundist sanngjarnt ef við hefðum unnið þetta,“ bætti Alfreð við.

„Spilamennskan og varamennirnir sem breyttu leiknum er það sem við getum tekið með okkur. Við breyttum aðeins um taktík og þá náðum við að opna þær betur.“

Framundan er bikarleikur gegn Fjölni og svo fá Selfossstelpur heimaleik gegn Þór/KA eftir pásuna í deildinni.

„Við þurfum að vera klárar í leikinn gegn Fjölni á föstudaginn, það er erfitt verkefni. Svo er 14-15 daga pása og svo koma Íslandsmeistararnir á Selfoss og við ætlum að bjóða þær velkomnar. Við hlökkum til að sjá sem flesta Selfyssinga á vellinum eftir tvær vikur,“ sagði Alfreð að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira