Erlent

Lögmaður Trump skilyrðir viðtal við gögn um meintar „njósnir“

Kjartan Kjartansson skrifar
Trump og Giuliani hafa háð harða hildi gegn sérstaka rannsakandanum sem kannar mögulegt samráð framboðs Trump við Rússa.
Trump og Giuliani hafa háð harða hildi gegn sérstaka rannsakandanum sem kannar mögulegt samráð framboðs Trump við Rússa. Vísir/EPA

Donald Trump Bandaríkjaforseti mun ekki veita sérstaka rannsakandanum sem stýrir Rússarannsókninni viðtal nema að lögmenn hans fái aðgang að gögnum um heimildarmann FBI sem ræddi við starfsmenn forsetaframboðs hans árið 2016. Forsetinn hefur fullyrt án sannanna að njósnað hafi verið um framboð hans.

Rudy Giuliani, lögmaður Trump, sagði við Washington Post í dag að þeir þyrftu að fá aðgang að öllum gögnum áður en þeir gætu ákveðið hvort að þeir fallist á að forsetinn veiti sérstaka rannsakandanum viðtal.

Trump hefur básúnað undanfarna daga og vikur um að „njósnað“ hafi verið um forsetaframboð hans af pólitískum ástæðum. Forsetinn hefur kallað málið „njósnahneykslið“. Hvorki hann né Hvíta húsið hafa lagt fram nokkur gögn eða sannanir um að þær ásakanir eigi við rök að styðjast.

Engu að síður samþykktu alríkislögreglan FBI og dómsmálaráðuneytið að veita þingmönnum upplýsingar um heimildarmann sem FBI notaði þegar hún rannsakaði fyrst vísbendingar um samskipti starfsmanna Trump-framboðsins við Rússa árið 2016 í síðustu viku.

Ekkert komið fram sem styður ásakanirnar

Fram hefur komið að eftir að FBI fékk upplýsingar um samskiptin leituðu rannsakendurnir til bandarísks fræðimanns með tengsl við Repúblikanaflokkinn. Hann ræddi við að minnsta kosti þrjá starfsmenn framboðsins og reyndi að afla upplýsinga um hvers eðlis samskiptin við Rússa hefðu verið.

Heimildarmaðurinn starfaði hins vegar aldrei innan framboðsins eins og Trump og stuðningsmenn hans hafa ýjað að. Bandarískir embættismenn segja að ekkert hafi verið óeðlilegt við störf heimildarmannsins.
Trump hélt áfram að fá útrás fyrir gremju sína á Twitter í dag. Sakaði saksóknara Roberts Mueller, sérstaka rannsakandans, um að reyna að hafa áhrif á þingkosningarnar sem fara fram í haust án frekari rökstuðnings. Þá endurtók hann möntru sína um að rannsóknin væri „nornaveiðar.“

Shepard Smith, fréttamaður hægrisinnuðu Fox News-sjónvarpsstöðvarinnar, sagði í dag að fréttastofa Fox hefði engar heimildir fyrir því að njósnað hafi verið um framboð Trump. Engu að síður hafa ýmsir þáttastjórnendur Fox og álitsgjafar gefið samsæriskenningunni byr undir báða vængi undanfarið.
Tengdar fréttir

Funda um uppljóstrara með leiðtogum Repúblikana í dag

Leiðtogar Repúblikana funda með toppum eftirlits- og löggæslustofnana og fá leyniskjöl um uppljóstrara alríkislögreglu í forsetaframboði Trumps. Forseti segir alríkislögreglu hafa njósnað um sig í pólitískum tilgangi, áður en Rússamálið kom upp, en sú staðhæfing er umdeild og The New York Times fullyrðir að hún sé röng.

Trump og bandamenn magna upp „njósnahneyksli“

Ekkert hefur komið fram sem bendir til þess að FBI hafi njósnað óeðlilega um framboð Donalds Trump. Vangaveltur um slíkt hafa gengið fjöllum hærra í fjölmiðlum sem eru hallir undir forsetann.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.