Erlent

Vill meina að bati Skrípal sanni sakleysi Rússa

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Vladímír Pútín.
Vladímír Pútín.
Sergeí Skrípal, rússneskur fyrrverandi gagnnjósnari sem eitrað var fyrir í Salisbury með novichok-taugaeitri í mars, var útskrifaður af sjúkrahúsi í gær. Frá þessu greindu bresk heilbrigðisyfirvöld.

Efnavopnaárásin á Skrípal, og Júlíu dóttur hans, var uppspretta illdeilna á milli Rússa og Breta. Þótti Bretum og bandamönnum ljóst að Rússar hefðu eitrað fyrir Skrípal-feðginum og ráku allnokkur ríki tugi rússneskra erindreka úr landi. Rússar hafa hins vegar alla tíð haldið fram sakleysi sínu, sett fram á annan tug misvísandi kenninga um árásina, og vísuðu jafnmörgum erindrekum úr landi á móti.

Efnavopnastofnunin staðfesti í apríl þann framburð Breta að eitrið hafi vissulega verið afar tært nov­ichok. Þykir Bretum ómögulegt annað en að eitrið hafi komið frá Rússlandi, meðal annars þar sem Sovétríkin hefðu þróað það og framleitt og vegna fyrri meintra árása Rússa á rússneska „föðurlandssvikara“.

Vladímír Pútín, forseti Rússlands, sagðist í gær glaður að Skrípal væri útskrifaður. „Ef það væri rétt, eins og Bretar hafa fullyrt, að fyrir honum hafi verið eitrað með efnavopni framleiddu í hernaðarskyni, hefði maðurinn dáið á vettvangi árásarinnar,“ sagði Pútín sem þykir batinn benda til sakleysis Rússa.




Tengdar fréttir

„Pútín hugsar eins og njósnaforingi"

Nikolaj Petrov, stjórnmálafræðingur frá Moskvu, var gestur Heimis Más Péturssonar í Víglínunni í dag. Þeir ræddu stjórnmálalandslagið í Rússlandi og Vladimir Pútín, en Pútín sór embættiseið í fjórða sinn sem forseti Rússlands síðastliðinn mánudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×