Erlent

Trump allt annað en sáttur vegna spurningalekans

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Donald Trump er ekki ánægður með að spurningalistanum hafi verið lekið
Donald Trump er ekki ánægður með að spurningalistanum hafi verið lekið Vísir/AFP
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segir að það sé „til skammar“ að listi yfir spurningar sem Robert Mueller, sérstakur saksóknari, vill spyrja forsetann að hafi verið lekið í fjölmiðla.

Spurningalistanum var lekið til New York Times og má finna á fimmta tug spurninga á listanum. Spurningarnar snúast margar um hugsanagang Trumps og leita skýringa á ummælum sem hann hefur látið falla á Twitter. Einnig er hann beðinn að skýra fundi ráðgjafa sinna með Rússum, fasteignaviðskipti í Moskvu ásamt ýmsu öðru.

Mueller, sem rannsakar meint afskipti Rússa af síðustu forsetakosningum vestanhafs, er sagður hafa látið lögræðiteymi Trump spurningarnar í té.

Líkt og vanalega þegar Trump þarf að tjá sig um málefni líðandi stundar greip hann til Twitter þar sem hann gagnrýndi harkalega að spurningunum hafi verið lekið til fjölmiðla og kallaði hann rannsókn Mullers „Rússnesku Nornaveiðarnar“.

Í öðru tísti sagði Trump að „Það er erfitt að hindra framgang réttvísinnar vegna glæps sem aldrei átti sér stað.“

Óvíst er hvort að Mueller muni fá svar við spurningunum en Rudy Giuliani, fyrrverandi borgarstjóri New York og nýr lögfræðingur Trump í málum sem tengjast rannsókninni hitti Mueller í síðustu viku.


Tengdar fréttir

Lögmaður Trump neitar að bera vitni

Í ljósi rannsóknar alríkislögreglunnar FBI vill lögmaðurinn ekki þurfa að bera vitni sem gæti bendlað hann við glæp í einkamáli klámmyndaleikkona gegn honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×