Erlent

Illdeilur Ísraels og Írans harðna

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Skilaboðin voru skýr á blaðamannafundi Netanjahús, sem fór fram á ensku.
Skilaboðin voru skýr á blaðamannafundi Netanjahús, sem fór fram á ensku. vÍSIR/AFP
Illdeilur Ísraela og Írana harðna dag frá degi og eru kjarnorkumál síðarnefnda ríkisins nú í sviðsljósinu. Leiðtogar ríkjanna tveggja kalla hvor annan lygara og málflutningur Ísraela þykir auka líkurnar á að Bandaríkjamenn rifti kjarnorkusamkomulagi sem Bandaríkin, Bretar, Rússar, Frakkar, Kínverjar, Þjóðverjar og ESB gerðu við Íran árið 2015.

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, vakti athygli á blaðamannafundi sínum á mánudag þar sem hann sýndi tugi mappa og á annað hundrað geisladiska sem áttu að innihalda skjöl Íransstjórnar um kjarnorkuvopnaáætlun ríkisins. Sagði Netanjahú að leyniþjónusta Ísraela hafi unnið þrekvirki og fundið skjölin í læstum skápum í húsi sem leit út fyrir að vera niðurnídd vöruskemma.

Skjölin eiga, samkvæmt Netanjahú, að sýna fram á að Íranar hafi logið að alþjóðasamfélaginu í aðdraganda kjarnorkusamkomulagsins  Sagði hann Írana hafa unnið að því að koma sér upp kjarnorkuvopnum í leyni eftir að tilkynnt var um að áætlunin hefði verið lögð niður árið 2003.

Netanjahú sýndi ekki fram á með afgerandi hætti að Íranar hefðu brotið samkomulagið með því að halda áfram vinnu við að koma sér upp kjarnorkuvopnum eftir að það var innleitt árið 2016. Sagði hann þó að unnið hefði verið áfram að verkefninu í leyni.

Það rímar illa við fyrri skýrslur Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar sem hefur sagt Írana vera að fylgja samkomulaginu.

Treysta á greind alþjóðasamfélagsins

Íranar voru ósáttir við staðhæfingar Netanjahús. Bahram Qasemi utanríkisráðherra sagði að ásakanir um lygar Íransstjórnar væru þreyttar, gagnslausar og skammarlegar. „Þessar ásakanir koma frá gjaldþrota, alræmdum lygara sem hefur ekkert upp á að bjóða annað en svik og pretti. Þetta er fáránlegur áróður,“ sagði harðorður Qasemi og bætti við:

„Netanjahú og hin barnamyrðandi ógnarstjórn síonista hljóta að vera meðvituð um að heimsbyggðin er nógu klár til að gleypa ekki við þessu.“

Netanjahú svaraði svo fyrir sig. Sagði Írana einfaldlega ekki vilja að heimsbyggðin fengi að vita það sem Ísraelar væru að greina frá.



Javad Zarif, utanríkisráðherra Ísraels.Vísir/AFp
Javad Zarif, utanríkisráðherra Írans, sagði svo sjálfur að með ummælum sínum væri Netanjahú að reyna að þvinga Trump til þess að rifta kjarnorkusamkomulaginu.

Trump hefur áður sagst ætla að rifta samkomulaginu. Gerði hann það til dæmis ítrekað í kosningabaráttunni. Frestur hans til að ákveða sig rennur út þann 12. maí næstkomandi.

Trump-liðar tóku ummælum Netanjahús vel. Sagði talsmaður þjóðaröryggisráðs Bandaríkjanna í gær að upplýsingarnar sem Netanjahú birti gæfu nýja innsýn í írönsk kjarnorkumál. Forsetaembættið sagði ásakanir Netanjahús samræmast upplýsingum Bandaríkjanna um að Íranar hafi unnið að gerð kjarnorkuvopna.

Mike Pompeo utanríkisráðherra sagði í gær skjöl Netanjahús sýna fram á með óyggjandi hætti að Íransstjórn hafi logið. 

Ekki voru þó allir á Vesturlöndum á sama máli. Rob Malley, úr samninganefnd Bandaríkjanna sem skipað var í í forsetatíð Baracks Obama, sagði Netanjahú ekki hafa birt neinar nýjar upplýsingar.

Utanríkisráðuneyti Frakklands sagði svo að ísraelska leyniþjónustan hafi með þessu sýnt enn betur fram á mikilvægi kjarnorkusamkomulagsins. Ísraelar hafa sjálfir sett sig mjög svo upp á móti gerð samkomulagsins, telja það styrkja stöðu Írana.



Þjarmaði að Netanjahú

Chris Cuomo, blaðamaður CNN, þjarmaði að Netanjahú í viðtali sem hann tók í gær. Sagði hann mikilvægt að ríki greindu frá því hvort þau ættu, eða ynnu að gerð kjarnorkuvopna og spurði Netanjahú hvort Ísraelar ættu kjarnorkuvopn.

„Við höfum alltaf sagt að við yrðum ekki fyrsta ríkið til að greina frá slíku svo við höfum ekki gert það,“ sagði Netanjahú. Cuomo endurtók spurninguna og fékk svarið: „Þú færð ekki betra svar en þetta. En ég skal segja þér það að Íran hefur skrifað undir alls konar yfirlýsingar og samkomulög um kjarnorkuvopn. Íran kallar daglega eftir því að Ísrael verði lagt í rúst.“ 

Cuomo sagðist hafa skilning á málflutningi Netanjahús. Íranar væru þekktir fyrir að ljúga en það skipti máli að leyna ekki kjarnorkuvopnum.

 „Hvaða skilaboð sendir það þegar þið svarið sjálf ekki spurningu sem meirihluti alþjóðasamfélagsins telur sig vita svarið við? Hvernig samræmist það því að vinna eftir gegnsæissjónarmiðum?“ Netanjahú sagði þetta ekki snúast um sjónarmið. Íranar hafi skrifað undir samkomulag sem skyldi þá til að greina frá málum sínum. Þegar Cuomo spurði í síðasta sinn af hverju Ísraelar vildu ekki staðfesta að þeir ættu kjarnorkuvopn svaraði Netanjahú:

„Þú mátt draga þær ályktanir sem þú vilt. Eitt er ljóst, við lofum aldrei gereyðingu annarra ríkja.“


Tengdar fréttir

Íranar horfa ásökunaraugum á Ísraela

Eldflaugum skotið á bækistöðvar íranskra hermanna í norðurhluta Sýrlands. Enginn hefur lýst yfir ábyrgð á árásinni. Íranar telja Ísraela hins vegar líklegasta. Írönsk yfirvöld hafna því að íranskir hermenn hafi fallið í árásunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×