Íslenski boltinn

Lennon með fjögurra ára samning við FH: „Blik í auga formanns FH“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Lennon og Jón Rúnar handsala samninginn.
Lennon og Jón Rúnar handsala samninginn. vísir/Twitter-síða FH
Steven Lennon hefur skrifað undir fjögurra ára samning við FH en núverandi samningur hans hefði runnið út eftir yfirstandandi tímabil.

Breiðablik hafa gert sig líklega undanfarna daga og vikur til þess að semja við Lennon en hann hefur ákveðið að halda tryggð við FH. Hann skrifaði undir fjögurra ára samning.

Lennon hefur spilað með FH síðan 2014 en hann er að spila sitt fjórða tímabil með félaginu núna. Klári hann samninginn mun hann spila átta leiktíðir með Hafnarfjarðarliðinu.

Á síðasta tímabili var Lennon frábær. Hann skoraði fimmtán mörk í 22 leikjum fyrir FH í Pepsi-deildinni en liðið endaði í þriðja sæti á síðustu leiktíð auk þess sem hann var öflugur í liði FH sem var nærri því að tryggja sér sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar.

Lennon byrjar þessa leiktíð vel og skoraði eina mark FH í 1-0 sigri á Grindavík í fyrstu umferð Pepsi-deildarinnar. Liðið mætir einmitt Breiðablik á mánudag, sem hafa freistað þess að semja við Lennon.

Á Twitter-síðu FH má sjá mynd af Jóni Rúnari Halldórssyni og Lennon en þar segir meðal annars að „það er ekki laust fyrir að það sé blik í auga formanns FH.“ Laufléttar kyndingar fyrir leik liðanna á mánudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×