Erlent

Sprengju beint að blaðamönnum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Maður á bifhjóli er sagður hafa sprengt sig í loft upp.
Maður á bifhjóli er sagður hafa sprengt sig í loft upp. Vísir/epa
Hið minnsta fjórir eru látnir eftir tvær sjálfsmorðsprengjuárásir í Kabúl, höfuðborg Afganistan, í morgun. Árásirnar voru gerðar klukkan 8 að staðartíma nærri höfuðstöðvum afgönsku leyniþjónustunnar.

Talið er að síðari sprengjunni, sem sprakk aðeins örfáum mínútum á eftir þeirri fyrri, hafi verið beint að fjölmiðlamönnum sem safnast höfðu saman á vettvangi. Yfirljósmyndari fréttastofunnar AFP í landinu er sagður hafa látið lífið í seinni sprengingunni.

Talsmaður innanríkisráðuneytis Afganistan segir í samtali við AFP að lítið sé vitað um sprengingarnar á þessari stundu. Það eina sem hægt sé að staðfesta er að þær hafi sprungið nokkurn veginn á sama stað.

Engu að síður er talið að í fyrri sprengingunni hafi maður á mótorhjóli verið að verki. Hann náði að draga 4 til dauða og særa aðra fimm. 

Enginn hefur enn lýst yfir ábyrgð á árásunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×