Enski boltinn

Kane vill hjálp frá markanefndinni frægu í baráttunni við Salah um gullskóinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Harry Kane fagnar markinu sem hann fékk ekki skráð en kannski á það eftir að breytast.
Harry Kane fagnar markinu sem hann fékk ekki skráð en kannski á það eftir að breytast. Vísir/Getty
Harry Kane er fimm mörkum á eftir Liverpool manninum Mo Salah í baráttunni um gullskóinn í ensku úrvalsdeildinni en hann sjálfur heldur því fram að hann sé aðeins fjórum mörkum á eftir Egyptanum.

Harry Kane vill nefnilega eigna sér seinna mark Tottenham um helgina sem var skráð á Danann Christian Eriksen.

Markanefnd ensku úrvalsdeildarinnar hefur þegar úrskurðað að markið skuli vera skráð á Christian Eriksen en Kane er ekki tilbúinn að gefast upp.





Tottenham hefur nú áfrýjað þessari ákvörðun markanefndarinnar og nú þurfa aðrir meðlimir hennar að skoða markið og koma með sína niðurstöðu. Hvort hún verður hliðhollari Kane verður að koma í ljós.

Kane eignaði sér markið eftir leikinn og sagði boltann hafa farið af öxlinni sinni og Christian Eriksen sagði ekki ætla að berjast um markið við hann heldur væri hann alveg eins sáttur með að fá stoðsendinguna.





„Ég sver upp á líf dóttur minnar að ég kom við boltann,“ lét Harry Kane meðal annars hafa eftir sér þegar hann barðist fyrir því að fá markið skráð.

Harry Kane hefur fengið gullskóinn tvö ár í röð og er því að reyna að vinna hann þriðja árið í röð. Síðastur til að afreka það var Thierry Henry hjá Arsenal.

Staðan er ennþá 29-24 fyrir Mo Salah en Kane mun halda baráttunni áfram bæði utan sem innan vallar. „Ég trúi því enn að ég geti orðið markakóngur og mun gera það á meðan ég á leiki eftir,“ sagði Kane.

Það má sjá markið í spilaranum hér fyrir neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×