Ótrúlegur endurkomusigur Chelsea gegn Southampton

Einar Sigurvinsson skrifar
Olivier Giroud.
Olivier Giroud. vísir/getty
Chelsea hafði betur gegn Southampton og vann að lokum 3-2 sigur en Southampton var tveimur mörkum yfir fram á 70. mínútu.

Southampton, sem er í hörkubaráttu um að halda sæti sínu í ensku úrvalsdeildinni, lét Chelsea hafa fyrir hlutunum í dag og náðu þeir snemma yfirhöndinni í leiknum.

Það var Dusan Tadic sem skoraði fyrsta mark leiksins á 22. mínútu. Ryan Bertrand átti þá góðan sprett upp kantinn. Hann náði að stinga sér framhjá Azpilicueta og koma boltanum á Tadic sem var ekki í erfiðleikum með að skila boltanum í netið.

Jan Bednarek bætti síðan um betur og kom Southampton í 2-0 eftir aukapyrnu frá Ward-Prowse. Þetta var fyrsti leikur Bednarek í ensku úrvalsdeildinni síðan hann kom til liðsins frá Lech Poznan í Pólandi.

Á 61. mínútu kom Olivier Giroud inná fyrir Alvoro Morata og skilaði sú skipting góðum árangri. Eftir níu mínútur inni á vellinum var Giroud búinn að minnka muninn fyrir Chelsea, en hann skoraði með skalla eftir fyrirgjöf frá Marcos Alonso.

Í kjölfarið lifnaði lið Chelsea við og sóttu þeir stíft að marki Southampton. Á 75. mínútu náði síðan Eden Hazard að jafna leikinn eftir fyrirgjöf frá Willian.

Á 79. mínútu varð Olivier Giroud síðan hetja Chelsea þegar hann kom Chelsea í 3-2 og innsiglaði sigurinn.

Chelsea getur enn haldið í vonina um meistaradeildarsæti en liðið er í 5. sæti deildarinnar með 60 stig, sjö stigum frá Tottenham og Liverpool í sætunum fyrir ofan.

Eftir leikinn í dag hefur Southampton aðeins unnið einn af síðustu 20 leikjum sínum í deildinni, en sá sigur kom gegn botnliði WBA. Liðið situr í 18. sæti deildarinnar með 28 stig, þremur stigum frá öruggu sæti.

Southampton og Chelsea mætast aftur um næstu helgi þegar undanúrslit FA-bikarsins fara fram.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira