Erlent

Macron segist hafa sannfært Trump um að halda herliðinu í Sýrlandi

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Macron segist hafa haft veruleg áhrif á utanríkisstefnu Bandaríkjanna.
Macron segist hafa haft veruleg áhrif á utanríkisstefnu Bandaríkjanna. vísir/afp

Emmanuel Macron, forseti Frakklands, segist hafa sannfært Donald Trump, Bandaríkjaforseta, um að herlið Bandaríkjanna skyldi halda kyrru fyrir í Sýrlandi. Það væri nauðsynlegt.

„Við sannfærðum hann um að það væri nauðsynlegt að halda kyrru fyrir til lengri tíma.“ Þetta hefur fréttastofa Reuters eftir Frakklandsforseta sem var í viðtali við BFM TV.

Trump vildi ganga lengra
Í sama viðtali tjáði Macron sig um loftárásir vesturveldanna þriggja á Sýrland. 

„Við sannfærðum hann líka um að loftárásirnar yrðu að einskorðast við skotmörk efnavopnabúranna, eftir að hann missti sig aðeins á Twitter,“ segir Macron um Twitterfærslur Donalds Trump. Bandaríkjaforseti hafi viljað ganga harðar fram.

Í lok síðasta mánaðar sagði Donald Trump ráðgjöfum sínum frá því að hann hygðist kalla aftur bandaríska hermenn frá Sýrandi fyrr en ætlað var. Ákvörðun forsetans er sögð í andstöðu við mat stjórnenda Bandaríkjahers sem telja að baráttunni gegn hryðjuverkasamtökunum sem kenna sig við Íslamskt ríki sé hvergi nærri lokið.

Donald Trump sagði stuðningsmönnum sínum frá þessu á fundi í Ohio í lok mars. „Við munum fara út úr Sýrlandi, þú veist, mjög fljótt. Látum aðra sjá um þetta núna. Mjög fljótt, mjög fljótt, förum við út,“ sagði Trump um herlið sitt.

Í viðtalinu sagði Macron að rússnesk yfirvöld, sem styðja Bashar al-Assad, væru meðsek. Vladimir Pútín hafi komið í veg fyrir það að alþjóðasamfélagið hafi getað, með diplómatískum hætti, komið í veg fyrir efnavopnaárásir. „Auðvitað eru þau meðsek.“

Hann ítrekaði að vesturveldin hefðu sannanir fyrir því að Sýrlandsstjórn hefði beitt efnavopnum á eigin þjóð. „Við vorum komin á þann stað að loftárásirnar voru nauðsynlegar til þess að efla tiltrú fólks á alþjóðasamfélagið.“


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.