Erlent

Macron segist hafa sannfært Trump um að halda herliðinu í Sýrlandi

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Macron segist hafa haft veruleg áhrif á utanríkisstefnu Bandaríkjanna.
Macron segist hafa haft veruleg áhrif á utanríkisstefnu Bandaríkjanna. vísir/afp
Emmanuel Macron, forseti Frakklands, segist hafa sannfært Donald Trump, Bandaríkjaforseta, um að herlið Bandaríkjanna skyldi halda kyrru fyrir í Sýrlandi. Það væri nauðsynlegt.

„Við sannfærðum hann um að það væri nauðsynlegt að halda kyrru fyrir til lengri tíma.“ Þetta hefur fréttastofa Reuters eftir Frakklandsforseta sem var í viðtali við BFM TV.

Trump vildi ganga lengra

Í sama viðtali tjáði Macron sig um loftárásir vesturveldanna þriggja á Sýrland. 

„Við sannfærðum hann líka um að loftárásirnar yrðu að einskorðast við skotmörk efnavopnabúranna, eftir að hann missti sig aðeins á Twitter,“ segir Macron um Twitterfærslur Donalds Trump. Bandaríkjaforseti hafi viljað ganga harðar fram.

Í lok síðasta mánaðar sagði Donald Trump ráðgjöfum sínum frá því að hann hygðist kalla aftur bandaríska hermenn frá Sýrandi fyrr en ætlað var. Ákvörðun forsetans er sögð í andstöðu við mat stjórnenda Bandaríkjahers sem telja að baráttunni gegn hryðjuverkasamtökunum sem kenna sig við Íslamskt ríki sé hvergi nærri lokið.

Donald Trump sagði stuðningsmönnum sínum frá þessu á fundi í Ohio í lok mars. „Við munum fara út úr Sýrlandi, þú veist, mjög fljótt. Látum aðra sjá um þetta núna. Mjög fljótt, mjög fljótt, förum við út,“ sagði Trump um herlið sitt.

Í viðtalinu sagði Macron að rússnesk yfirvöld, sem styðja Bashar al-Assad, væru meðsek. Vladimir Pútín hafi komið í veg fyrir það að alþjóðasamfélagið hafi getað, með diplómatískum hætti, komið í veg fyrir efnavopnaárásir. „Auðvitað eru þau meðsek.“

Hann ítrekaði að vesturveldin hefðu sannanir fyrir því að Sýrlandsstjórn hefði beitt efnavopnum á eigin þjóð. „Við vorum komin á þann stað að loftárásirnar voru nauðsynlegar til þess að efla tiltrú fólks á alþjóðasamfélagið.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×