Pogba skoraði tvö í sigri United á City

Dagur Lárusson skrifar
Paul Pogba var frábær í seinni hálfleiknum.
Paul Pogba var frábær í seinni hálfleiknum. vísir/getty
Manchester City mistókst að tryggja sér Englandsmeistaratitilinn er liðið tapaði fyrir grönnum sínum Í United en leiknum lauk með 3-2 sigri þeirra rauðklæddu.

 

Liðsmenn City byrjuðu leikinn með miklum krafti og sóttu stíft fyrstu mínúturnar og sköpuðu sér mikið af færum. Fyrsta markið kom þó ekki fyrr en á 25. mínútu þegar Manchester City fékk hornspyrnu. David Silva tók hornspyrnuna og það var Vincent Kompany sem reis manna hæst og stangaði boltann í netið.

 

Aðeins fimm mínútum seinna átti Manchester City frábæra sókn sem endaði með því að Raheem Sterling fékk boltann rétt fyrir utan vítateig United, hann lagði boltann á Gundogan sem sneri laglega á varnarmenn United og setti boltann í netið.

 

Áður en flautað var til hálfleiksins fékk Raheem Sterling þrjú færi sem hann hefði getað skorað úr og þá mögulega gert út um leikinn en allt kom fyrir ekki.

 

Seinni hálfleikurinn var hreint út sagt ótrúlegur. José Mourinho blés nýju lífi í sína menn sem mættu tvíelfdir til leiks.

 

Paul Pogba, sem hefur legið undir mikilli gagnrýni, minnkaði muninn fyrir United á 53. mínútu eftir flott spil. Aðeins tveimur mínútum seinna var hann síðan búinn að jafna metin fyrir United með frábærum skalla eftir sendingu frá Alexis Sanchez. Staðan orðin jöfn og United með yfirhöndina.

 

Næstu mínúturnar einkenndust af yfirburðum Manchester United sem þeir nýttu sér á 69. mínútu. Þá tók Sanchez aukaspyrnu rétt fyrir utan teig sem endaði hjá Chris Smalling sem stýrði boltanum í netið framhjá Ederson. United búið að snúa leiknum við.

 

Eftir þetta mark setti Pep Guardiola Kevin De Bruyne inná og Sergio Aguero en það dugði ekki til því United hélt út og vann 3-2 sigur.

 

Þessi sigur United þýðir að City mun þurfa að bíða í lengri tíma til þess að fagna titlinum en það mun heldur ekki koma í næstu viku gegn Tottenham þar sem United spilar ekki fyrr en tveimur dögum seinna.

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira