Welbeck hetja Arsenal í dramatískum sigri

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Welbeck hafði ekki skorað mark í síðustu 17 leikjum fyrir viðureign dagsins
Welbeck hafði ekki skorað mark í síðustu 17 leikjum fyrir viðureign dagsins vísir/getty
Danny Welbeck var allt í öllu í sigri Arsenal á Southampton í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Leikurinn leystist upp í vitleysu á loka mínútunum með tvö rauð spjöld í uppbótartíma.

Jack Stephens fékk að fjúka út af eftir að hafa hrint Jack Wilshire harkalega í jörðina. Hann hafði nú alveg tilefni til þess að verða reiður þar sem Wilshere hafði hangið í treyju Stephens í einhverjar 10-15 sekúndur. Viðbrögðin voru hins vegar of harkaleg að mati dómarans sem rak Stephens af velli. Wilshere fékk að líta gula spjaldið fyrir sitt brot.

Eftir mikla ringulreið og mótmæli fékk Mohamed Elneny í liði Arsenal einnig að líta rauða spjaldið. Ekki var auðséð fyrir hvað, en endursýningar sýndu að hann sló til Cedric Soares.

Spjöldin höfðu þó lítil áhrif þar sem leikurinn var að fjara út. Hann hafði byrjað hræðilega fyrir Arsenal þar sem Shkodran Mustafi gaf Southampton opnunarmarkið á gylltu fati. Ágæt fyrirgjöf frá Soares inn í teiginn sem Mustafi ætti vel að geta ráðið við, nema hvað hann bíður og ætlast til að Petr Cech taki boltann. Í staðinn kemst Shane Long auðveldlega fram fyrir Mustafi og skorar.

Frammistaða Arsenal í upphafi leiksins var langt fyrir neðan par og kom jöfnunarmark þeirra eins og þruma úr heiðskýru lofti. Danny Welbeck átti frábæra sendingu inn á Pierre-Emerick Aubameyang sem skorar fram hjá Alex McCarthy.

Heimamenn lifnuðu allir við eftir jöfnunarmarkið og komust yfir stuttu seinna. Welbeck var aftur á ferðinni og átti gott skot sem fer af Maya Yoshida og í markið. Staðan í hálfleik 2-1 fyrir Arsenal.

Southampton gafst þó ekki upp, enda liðið að berjast fyrir lífi sínu í deildinni. Eftir þrotlausa sókn að marki Arsenal, þar sem Shane Long skoraði mark sem var réttilega dæmt af vegna rangstöðu, náði Southampton loks að jafna.

Charlie Austin, sem hafði komið inn á sem varamaður aðeins mínútu fyrr, skoraði markið eftir laglegt spil Cedric Soares sem átti fyrirgjöfina inn á Austin. Hann hefur nú skorað í öllum fjórum leikjum sínum gegn Arsenal.

Leikurinn var galopinn síðasta korterið. Danny Welbeck komst í algjört dauðafæri þar sem það var margfalt erfiðara að klúðra heldur en að skora mark, en honum tókst þó að skjóta yfir markið af rétt um metra færi fyrir galopnu markneti. Það tók Englendinginn þó ekki langan tíma að bæta upp fyrir mistökin því hann skoraði sigurmarkið með skalla á 81. mínútu.

Leikmenn Southampton reyndu hvað þeir gátu en náðu ekki að svara og leikurinn endaði svo í einhverri vitleysu með spjöld á loft hægri vinstri.

Úrslitin þýða lítið fyrir Arsenal, þó það sé enn tölfræðilegur möguleiki fyrir þá að ná í 4. sætið þá er hann mjög fjarstæður og líklegast ekki á sjónarhringnum hjá liðsmönnum Arsenal. Stig, og þá sérstaklega þrjú, hefðu hins vegar verið risa stór fyrir Southampton sem situr í 18. sæti, fallsæti, þremur stigum frá 17. sætinu.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira