Chicharito tryggði West Ham jafntefli

Dagur Lárusson skrifar
Javier Hernandez og Arnautovic.
Javier Hernandez og Arnautovic. vísir/getty
Javier Hernandez ,eða Chicharito, tryggði West Ham jafntefli gegn Chelsea á Stamford Brigde en lokastaðan var 1-1.

 

Chelsea tapaði fyrir Tottenham í síðasta deildarleik og þurfti nauðsynlega á sigri að halda í dag til þess að eiga einhvern möguleika á að ná Meistaradeildarsæti en fyrir leikinn var Chelsea átta stigum á eftir Tottenham í fjórða sætinu.

 

Liðsmenn Chelsea byrjuðu leikinn af miklum krafti og sóttu stíft fyrstu mínúturnar en þeir náðu hinsvegar ekki að skora fyrr en á 36. mínútu þegar Chelsea fékk hornspyrnu. Boltinn barst þá til Cezar Azpiliqueta sem stýrði boltanum í netið og var staðan 1-0 í hálfleik.

 

Í seinni hálfleiknum var Chelsea ennþá sterkari aðilinn en West Ham byrjaði þó að sækja í sig veðrið þegar líða fór á leikinn.

 

David Moyes gerði síðan skiptingu þegar um tuttugu mínútur voru eftir af leiknum en þá setti hann Javier Hernandez inná sem átti eftir að breyta gangi mála.

 

Marko Arnautovic fékk boltann í teig Chelsea á 73. mínútu og lagði hann boltann á Hernandez sem að skoraði og jafnaði leikinn og því stefndi allt í æsispennandi lokamínútur.

 

Liðin skiptust á að sækja en hvorugu liðinu tókst að skora sigurmarkið og því lokatölur 1-1. Eftir leikinn er Chelsea heilum tíu stigum á eftir Tottenham í fjórða sætinu á meðan West Ham er nú í fjórtánda sæti, sex stigum frá fallsæti.

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira