Erlent

Ætlar aftur að sleppa kvöldverði með blaðamönnum

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump sagði í fyrra að hann ætlaði sér að mæta á kvöldverðinn að ári.
Donald Trump sagði í fyrra að hann ætlaði sér að mæta á kvöldverðinn að ári. Vísir/Getty
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, ætlar ekki að mæta á árlegan kvöldverð blaðamanna innan Hvíta hússins. Þetta er annað árið í röð sem forsetanum stendur til boða og mæta og annað árið í röð sem hann hafnar því. Þegar Trump ákvað að mæta ekki í fyrra var það í fyrsta sinn í 36 ár sem forseti lætur ekki sjá sig á viðburðinum.

Það hafði áður gerst árið 1981 en þá mætti Ronald Reagan ekki þar sem hann hafði nýlega verið skotinn.

Um er að ræða gamalgróna hefð þar sem samtök blaðamanna innan Hvíta hússins bjóða forsetanum til kvöldverðar og hefur jafnframt myndast hefð fyrir því að gert sé góðlátlegt grín að forsetanum á kvöldverðinum. Þá hefur fjöldi þekktra einstaklinga einnig látið sjá sig á þessum viðburði.

Í tilkynningu frá Hvíta húsinu segir að aðrir starfsmenn ríkisstjórnarinnar verði hvattir til að mæta og fagna fyrsta ákvæði stjórnarskrár Bandaríkjanna sem fjallar meðal annars um tjáningarfrelsi og frelsi fjölmiðla.



Einungis nokkrum klukkustundum áður en áðurnefnd tilkynning var gefin gagnrýndi Trump fjölmiðla harðlega í tísti. Sagði hann að meirihluti fjölmiðla væri óheiðarlegur og spilltur.

Í stað þess að mæta á kvöldverðinn í fyrra skipulagði Trump samstöðufund með stuðningsmönnum sínum. Hann sagði þá að hann myndi „algerlega“ mæta næst. Ekki liggur fyrir hvað hann ætlar sér að gera í staðinn.

Trump hefur ítrekað gagnrýnt fjölmiðla sem honum þykir vera ósanngjarna við sig og síðan hann varð forseti hefur nánast eingöngu farið í viðtöl hjá Fox News og öðrum miðlum sem þykja hliðhollir honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×