Aron Einar náði í tvær vítaspyrnur í dramatísku tapi

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Aron Einar Gunnarsson.
Aron Einar Gunnarsson. vísir/getty
Cardiff misnotaði tvær vítaspyrnur í uppbótartíma og þurfti því að sætta sig við tap í toppslag ensku 1. deildarinnar í fótbolta í kvöld.

Fyrir leikinn var Wolverhampton með sex stiga forystu á Cardiff á toppi ensku Championship deildarinnar og þvi mikið undir þegar liðin mættust í Cardiff.

Ruben Neves skoraði sigurmarkið á 67. mínútu beint úr aukaspyrnu af rúmlega 20 metra færi. Það átti þó mikið vatn eftir að renna til sjávar og voru lokamínúturnar heldur betur dramatískar og ekki hægt að segja annað en að heimamenn hafi fengið sín tækifæri til þess að jafna leikinn.

Aron Einar Gunnarsson var viðriðinn báðar vítaspyrnur, hann átti „stoðsendinguna,“ inn á Anthony Pilkington sem Conor Coady braut á fyrir fyrra vítið og svo sótti íslenski landsliðsfyrirliðinn seinna vítið þegar Ivan Cavaleiro braut á honum.

Hann fékk þó ekki að taka spyrnurnar, Gary Madine tók þá fyrri og lét John Ruddy verja frá sér og Junior Hoilett skaut seinni spyrnunni í þverslánna.

Cardiff hafði ekki tapað leik í dieldinni síðan í desember en þurfti nú að bíða ósigur og var tapið gert enn verra með þeirri staðreynd að ólíklegt er að velska liðið nái toppsætinu af Wolves úr þessu, níu stigum munar á liðunum þegar Cardiff á sex leiki eftir.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira