Erlent

Vona að ferðalög erlendis dragi athygli Trump frá Comey

Kjartan Kjartansson skrifar
Comey hefur meðal annars borið um að Trump hafi beðið hann um að láta rannsókn á Michael Flynn, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafa hans, falla niður í fyrra.
Comey hefur meðal annars borið um að Trump hafi beðið hann um að láta rannsókn á Michael Flynn, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafa hans, falla niður í fyrra. Vísir/AFP
Ný bók frá James Comey, fyrrverandi forstjóra bandarísku alríkislögreglunnar FBI, er líkleg til tröllríða fjölmiðlum í næstu viku. Þrátt fyrir það er Hvíta húsið ekki sagt hafa neina áætlun um hvernig það ætli að bregðast við fullyrðingum Comey. Helst vona aðstoðarmenn Trump forseta að ferðalög hans erlendis muni draga athygli hans frá umfjölluninni.

Bókar Comey er beðið með nokkurri eftirvæntingu. Trump rak Comey í maí í fyrra og sagði að það hefði verið vegna rannsóknar FBI á meintu samráði forsetaframboðs hans við Rússa. Comey hefur sagt þingnefnd að hann hafi talið forsetann reyna að fá sig til að fella niður rannsókn á bandamönnum sínum og krafið hann um hollustu sína.

Brottrekstur Comey varð til þess að Robert Mueller var falið að stýra rannsókninni sem sérstakur rannsakandi dómsmálaráðuneytisins.

Bandaríska blaðið Politico segir að Hvíta húsið hafi gert lítið til að undirbúa viðbrögð við bókinni vegna þess að það væri á endanum tilgangslaus æfing. Trump gæti hvenær sem er hent öllum undirbúnum yfirlýsingum út um gluggann með enn einum tíststorminum.

Þess í stað voni aðstoðarmenn forsetans að ferðalög hans til Suður-Ameríku og fundur með Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, á Flórída í næstu viku dreifi athygli hans.

Kallaði Comey „geðsjúkling“ við rússneska erindreka

Bók Comey nefnist „Æðri hollusta: Sannleikurinn, lygar og forysta“ [e. A Higher Loyalty: Truth, Lies and Leadership]. Þrátt fyrir að hún komi ekki út fyrr en í næstu viku er hún nú þegar nærri toppi metsölulista á Amazon-verslunarvefnum.

Í kjölfar útgáfunnar fer Comey í kynningaferð í fjölmiðlum, meðal annars í fjölda sjónvarpsviðtala. Fyrir utan framburð hans fyrir þingnefnd í fyrra hefur hann lítið sem ekkert tjáð sig um það sem gekk á eftir að Trump tók við sem forseti og þangað til hann rak Comey í fyrra.

Trump kallaði Comey meðal annars „geðsjúkling“ þegar hann tók á móti utanríkisráðherra og sendirherra Rússa daginn eftir að hann sparkaði honum úr embætti. Brottreksturinn hafi jafnframt létt miklum þrýstingi af honum vegna Rússarannsóknarinnar.

Síðar virtist Trump hóta Comey með upptökum af samtölum þeirra. Þegar Comey var spurður út í upptökur sagði hann eftirminnilega: „Drottinn minn, ég vona að það séu til upptökur“. Hvíta húsið varð síðar að viðurkenna að upptökur hafi aldrei verið gerðar af samtölum Trump og Comey.

Fréttin hefur verið uppfærð. Shinzo Abe var upphaflega ranglega sagður forseti Japans.


Tengdar fréttir

Trump tjáir sig um vitnisburð Comey eftir langa þögn

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, stóðst freistinguna og tísti ekkert á meðan James Comey, fyrrverandi forstjóri FBI, svaraði spurningum njósnamálanefndar Bandaríkjaþings í gær um samskipti hans við Trump. Hann er þó mættur aftur á Twitter.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×