Erlent

Útbreiðsla hafíssins á norðurskauti nærri því minnsta sem sést hefur

Kjartan Kjartansson skrifar
Hafís norðvestur af Grænlandi á mynd NASA frá því í mars í fyrra. Hámarksútbreiðsla íssins hefur aldrei mælst minni fyrir árstíma en þá.
Hafís norðvestur af Grænlandi á mynd NASA frá því í mars í fyrra. Hámarksútbreiðsla íssins hefur aldrei mælst minni fyrir árstíma en þá. Vísir/AFP
Aðeins einu sinni áður hefur hámarksútbreiðsla hafíssins í Norður-Íshafi við lok vetrar verið minni en hún er nú. Vísindamenn segja að hafísinn hafi þakið 14,5 milljónir ferkílómetra þegar mest lét. Það er aðeins örlítið meira en í fyrra en þá hafði hámarksútbreiðslan aldrei mælst minni frá því að gervinhattamælingar hófust.

Vísindamenn við Snjó- og ísgagnamiðstöð Bandaríkjanna (NSIDC) telja að hafísinn hafi náð hámarki sínu 17. mars. Þá var um milljón ferkílómetrum minni en langtímameðaltalið á þessum árstíma. Reuters-fréttastofan segir að það jafnist á við flatarmál Egyptalands.

Mikil hitabylgja gekk yfir norðurskautið í febrúar. Fór hitinn á sumum hlutum þess allt að 25°C yfir meðaltal fyrir árstíma. Á norðurpólnum er talið að hitinn hafi um tíma farið yfir frostmark. NSDIC segir að fjögur lægstu hámarksgildi hafíssins hafi öll mælst síðustu fjögur árin.

Á suðurskautinu segir NSIDC að hafísinn hafi náð næstuminnstu lágmarksútbreiðslu sinni að sumri frá upphafi gervihnattamælinga á 8. áratug síðustu aldar. Metárið í þeim efnum var sett í fyrra.

Kort sem sýnir hámarksútbreiðslu hafíssins á norðurskautinu 17. mars. Gula línan sýnir meðaltal áranna 1981 til 2010 fyrir þann dag.NSIDC

Tengdar fréttir

Meiri ógn af sífreranum nyrst á norðurhjara

Allt að fimmfalt meira magn kolefnis er bundið í sífrera á norðanverðu norðurskautinu en sunnar. Verulegt magn gróðurhúsalofttegunda gæti losnað þaðan þegar á þessari öld.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.