Erlent

Vill að börn læri endurlífgun í stað hertra byssulaga

Samúel Karl Ólason skrifar
Rick Santorum.
Rick Santorum. Vísir/GETTY
Repúblikaninn, fyrrverandi þingmaðurinn og forsetaframbjóðandinn Rick Santorum telur að nemendur í Bandaríkjunum ættu frekar að læra endurlífgun en að berjast fyrir því að „aðrir lagi vandamál þeirra“. Hundruð þúsundir nemenda Bandaríkjanna gengu um götur í gær og kröfðust hertrar löggjafar varðandi bysseign í ríkinu í kjölfar þess að 17 manns voru myrtir í skóla í Flórída í síðasta mánuði.

Þetta sagði Santorum á CNN í dag þar sem kröfugöngurnar voru ræddar. 

„Hvernig væri það ef að, í stað þess að leita að öðrum til að laga þeirra vandamál, myndu þessir krakkar jafnvel læra endurlífgun eða athuga hvernig þau geta brugðist við skotárás.“

„Þau gripu til aðgerða til þess að fá aðra til að breyta lögum. Þau sögðu ekki: Hvernig get ég, sem einstaklingur, tekist á við þetta vandamál? Hvað get ég gert gegn einelti í mínu eigin samfélagi? Hvað get ég gert til að bregðast við skotárás?“

Santorum sagði að nemendur ættu frekar að velta þessu fyrir sér en að hugsa: „Oh, einhver annar þarf að setja lög til að vernda mig,“ eins og hann orðaði það.

Hér að neðan má sjá umræðuna. Ummæli Santorum má sjá á 4:30.

Van Jones, annar gestur CNN, tók nú ekki vel í hugmyndir Santorum og benti á að sonur sinn væri að hefja nám.

„Ég vil að hann einbeiti sér að algebru og öðru slíku. Ef hans eina leið til að lifa skólagönguna af er að læra endurlífgun svo hann geti komið vini sínum sem hefur verið skotinn til bjargar ... Þá finnst mér við hafa gengið of langt.“

Santorum var einnig á þeim nótum að hert lög varðandi byssueign myndu ekkert gagn gera.

Ummæli þingmannsins fyrrverandi hafa vakið mikla athygli og hafa verið harðlega gagnrýnd á samfélagsmiðlum.


Tengdar fréttir

„Nú er nóg komið“

Hundruð þúsunda tóku þátt í March for Our Lives í Bandaríkjunum í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×