Erlent

Bandaríkin fullviss um fundinn þrátt fyrir þögn Norður Kóreu

Birgir Olgeirsson skrifar
Frá fundi suður kóresku sendinefndarinnar og Kim Jon Un
Frá fundi suður kóresku sendinefndarinnar og Kim Jon Un Vísir/Getty
Forsetaembætti Bandaríkjanna gengur út frá því með fullri vissu að fundur Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, og Kim Jong Un, leiðtoga Norður Kóreu, muni eiga sér stað þrátt fyrir að yfirvöld í Norður Kóreu hafi ekki gefið út opinbera staðfestingu þess efnis að fundurinn muni eiga sér stað.

Greint er frá þessu á vef Reuters. Sendinefnd á vegum Suður Kóreu átti fund með Kim Jong Un í Norður Kóreu í síðustu viku. Færði suður kóreska sendinefndin heiminum þær fregnir að Kim Jong Un hefði lýst því yfir að hann vildi hitta Trump og forseta Suður Kóreu til að ræða möguleika á því að Norður Kóreumenn losi sig við kjarnorkuvopn.

Talskona forsetaembættis Bandaríkjanna, Sarah Sanders, var spurð á blaðamannafundi í dag hvort að þögn yfirvalda í Norður Kóreu um fundinn gæfi til kynna að ekki yrði af honum. Sanders svaraði að forsetaembættið gengi út frá því að fundurinn muni eiga sér stað.

„Fundarboðið barst og við þáðum það. Norður Kóreumenn gáfu nokkur loforð og við vonumst til að þeir muni standa við þau. Ef svo verður þá mun fundurinn eiga sér stað,“ svaraði Sanders.

Reuters segir yfirvöld í Suður Kóreu halda því fram að þögn Norður Kóreu megi rekja til varfærni þegar kemur að undirbúningi fundarins.

Haft hefur verið eftir embættismönnum innan stjórnkerfisins í Suður-Kóreu að fundurinn verði haldinn í maí. Enginn sitjandi forseti Bandaríkjanna hefur hitt leiðtoga Norður Kóreu og því verður um sögulegan fund að ræða ef af honum verður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×