Innlent

Neitar sök í manndrápsmáli

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Maðurinn huldi andlit sitt þegar hann var leiddur fyrir dómara í morgun.
Maðurinn huldi andlit sitt þegar hann var leiddur fyrir dómara í morgun. Vísir/rakel
Dagur Hoe Sigurjónsson, 25 ára karlmaður sem ákærður er af héraðssaksóknara fyrir að verða hinum albanska Klevis Sula að bana á Austurvelli í desember síðastliðnum, neitaði sök þegar málið var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Maðurinn er einnig ákærður fyrir tilraun til manndráps með því að hafa stungið samlanda Sula þrisvar sinnum sömu nótt, það er aðfaranótt sunnudagsins 3. desember. Neitaði hann einnig sök varðandi þann ákærulið.

Í ákæru málsins segir að maðurinn hafi stungið Sula fjórum sinnum þegar hann réðst á hann á Austurvelli umrædda nótt. Sula lést af sárum sínum fimm dögum síðar en í ákæru segir að áverkinn á hjartanu hafi verið „banvænn og höfðu önnur skurðsár áhrif á andlát hans.“

Samlandi Sula hlaut skurðsár á bakinu og utanverðri öxl, sömuleiðis á vinstri upphandlegg og á kálfa. Sú stunga náði ofan í slagæð og olli slagæðablæðingu.

Móðir Sula fer fram á tíu milljónir króna í miskabætur auk tæplega 900 þúsund króna vegna útlagðs kostnaðar vegna útfarar sonar hennar. Faðir Sula gerir sömuleiðis kröfu um tíu milljónir króna í miskabætur. Maðurinn sem var stunginn en lifði árásina af krefst 3,2 milljóna króna í bætur. Ákærði í málinu hafnaði bótakröfunum.

Næsta fyrirtaka í málinu verður á miðvikudag í næstu viku.



Fréttin hefur verið uppfærð.



Tengdar fréttir

Kveiktu á kertum í minningu Klevis Sula

Fólk kom saman við Reykjavíkurtjörn í dag og kveikti á kertum í minningu Klevis Sula sem lést eftir hnífstunguárás á Austurvelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×