Fótbolti

Lewandowski búinn að semja við Real Madrid samkvæmt fréttum frá Spáni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Robert Lewandowski.
Robert Lewandowski. Vísir/Getty

Pólski framherjinn Robert Lewandowski er á leiðinni til Real Madrid í sumar ef marka má fréttir frá Spáni.

Mundo Deportivo slær því upp að Real Madrid sé nánast búið að ganga frá samningum við Robert Lewandowski og eigi „bara“ eftir að semja um kaupverðið Bayern München.

Viðræður hafa staðið yfir í nokkurn tíma á milli Pini Zahavi, umboðsmanns Lewandowski, og José Ángel Sánchez, sem er hægri hönd Florentino Pérez, forseta Real Madrid.

Samningurinn á að vera til tveggja ára með möguleika á þriðja árinu en Lewandowski er orðinn 29 ára.

Robert Lewandowski er með samning við Bayern München til júní 2021 og á því enn eftir þrjú ár af honum. Hann mun því örugglega kostað sitt.

Pini Zahavi á að hafa kannað áhuga á sínum leikmanni hjá liðum Paris Saint Germain, Arsenal og Chelsea en raunin sé bara sú að Lewandowski vill umfram allt spila með liði Real Madrid.

Robert Lewandowski kom til Bayern frá Borussia Dortmund árið 2014 en hafði spilað með Dortmund frá 2010.

Lewandowski skoraði 74 deildarmörk í 131 leik með Dortmund en hefur gert enn betur hjá Bayern þar sem hann er með 100 deildarmörk í 121 leik.

Lewandowski er þegar kominn með 23 deildarmörk á þessu tímabili en skoraði 30 deildarmörk fyrir Bayern bæði tímabilin 2015-16 og 2016-17.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.