Enski boltinn

Salah bað um leyfi til að fljúga til Flórens og vera viðstaddur útför Astori

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Mohamed Salah vill votta Astori virðingu sína.
Mohamed Salah vill votta Astori virðingu sína. vísir/getty
Mohamed Salah, framherji Liverpool, bað Jürgen Klopp um leyfi til að fljúga til Flórens á Ítalíu í dag til að vera viðstaddur útför ítalska fótboltamannsins Davide Astori.

Astori lést snemma á sunnudagsmorgun úr hjartaáfalli og hefur ítalskur fótbolti verið í lamasessi vegna dauða hans en útförin fer fram í Santa Croce í Flórens í dag.

Ítalska blaðið La Nazione greinir frá því að Egyptinn, sem spilaði með Fiorentina og Roma eins og Astori, hafi beðið um leyfi til að vera viðstaddur útförina en því fylgir ekki sögunni hvort hann hafi fengið grænt ljós.

Salah hefur verið magnaður á leiktíðinni og er búinn að skora 33 mörk í öllum keppnum en hann verður í lykilhlutverki hjá Liverpool þegar að liðið mætir Manchester United í hádeginu á laugardaginn í stórleik helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni.

Þrátt fyrir að Salah spilaði með sömu liðum og Astori voru þeir aldrei samherjar. Hann vill bara fara og votta kollega sínum virðingu sína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×