Erlent

Eiginmaður Janne segir hana hafa orðið fyrir voðaskoti

Atli Ísleifsson skrifar
Síðast sást til Janne Jemtland á lífi að morgni 29. desember síðastliðinn.
Síðast sást til Janne Jemtland á lífi að morgni 29. desember síðastliðinn. Norska lögreglan/Getty
Eiginmaður norsku konunnar Janne Jemtland segir að hún hafi látist af völdum voðaskots, en lögregla grunar manninn um morð.

Norska lögreglan greindi í morgun  frá því hvað hafi orðið Janne að bana.

„Janne Jemtland var skotin,“ segir André van der Eynden hjá lögreglunni. Lögregla hafði áður ekki viljað greina opinberlega frá hvað talið var að hafi dregið Janne til dauða. Skotvopnið hefur enn ekki fundist.

Mál hinnar 36 ára Janne Jemtland hefur vakið mikla athygli í Noregi en hún hvarf sporlaust eftir veislu norður af Hamar í Noregi í lok desembermánaðar. Lík hennar fannst síðar í ánni Glomma.

Eynden greindi frá því í morgun að lögreglu gruni að hún hafi verið skotin til bana sama kvöld og tilkynnt var um hvarf hennar. Umfangsmikil leit var gerð að henni og var eiginmaðurinn síðar handtekinn vegna gruns um að tengjast hvarfi hennar.

Annar maður handtekinn

„Hann viðurkennir ekki það sem hann er grunaður um. Hann viðurkennir ekki að hafa myrt hana,“ segir van der Eynden. Vill eiginmaðurinn meina að hún hafi orðið fyrir voðaskoti.

Ennfremur var greint frá því í morgun að annar maður hafi verið handtekinn í tengslum við rannsókn málsins. Sá hafði áður verið yfirheyrður vegna málsins en hann er grunaður um að hafa logið að lögreglu um framvinduna.


Tengdar fréttir

Telja sig vita hvernig Janne lést

Norska lögreglan telur sig vita hvernig Janne Jamtland lést. Talið er að lík hennar hafi fundist í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×