Enski boltinn

Jamie Carragher spyr á Sky: Hversu langan tíma fær titlalaus Jürgen Klopp?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jürgen Klopp.
Jürgen Klopp. Vísir/Getty
Jamie Carragher vann á sínum tíma ellefu titla á sautján árum með Liverpool. Nú veltir hann fyrir sér hversu langur tími líður þar til að stuðningsmenn Liverpool fara að snúast gegn Jürgen Klopp.

Carragher er á því að Klopp sé að gera góða hluti með Liverpool liðið en telur jafnframt að þýsku stjórinn muni fara að fá á sig meiri gagnrýni ef Liverpool liðið bætir ekki árangur sinn á næstu tólf mánuðum.

Carragher spyr: Hversu langan tíma fær titlalaus Jürgen Klopp áður en stuðningsmenn fara að gagnrýna hann?

Klopp er búinn að sitja í meira en tvö ár í knattspyrnustjórastólnum á Anfield og liðið hefur bætt sig á þeim tíma. Liðið hefur hinsvegar ekki enn tekist að vinna titil undir hans stjórn.

Liverpool hefur tapað tveimur úrslitaleikjum undir stjórn Þjóverjans, úrslitaleik deildabikarsins og úrslitaleik Evrópudeildarinnar. Báðir þeir leikir komu á hans fyrsta fulla tímabili.

Carragher spáir því að pressan fari að aukast á Klopp muni þetta ekki breytast á næstu tólf mánuðum en eini raunhæfi möguleiki liðsins á titli á þessari leiktíða er að vinna Meistaradeildina sem er fjarlægur draumur.

„Ef hann heldur liðinu í Meistaradeildinni þá telst þetta vera gott tímabil fyrir Liverpool. Það er auðvitað hægt að nefna til titla og að vinna ensku úrvalsdeildina en Liverpool þarf fyrst og fremst að verða stöðugt Meistaradeildarfélag,“ sagði Jamie Carragher við Sky Sports.





„Liverpool hefur verið tvisvar sinnum í Meistaradeildinni á síðustu tíu árum og eina ástæðan fyrir því að þeir komst þangað aftur var af því að þeir voru lausir við Evrópukeppnina það tímabil. Það væri því afrek fyrir Klopp takist honum að halda Liverpool í Meistaradeildarsæti,“ sagði Carragher.

„Ég hef gagnrýnt Arsene Wenger fyrir að vera í topp fjögur svo lengi og taka ekki næsta skref í deild eða Meistaradeild. Ef Klopp er ennþá bara að ná inn á topp fjögur eftir fjögur eða fimm ár og ekki kominn nær því að vinna úrvalsdeildina eða Meistaradeildina þá væri það ekki nógu gott,“ sagði Carragher.

„Eins og staðan er núna þá getur hann gert Liverpool að liði sem er alltaf í Meistaradeildinni og liði sem mun vinna titla. Takist það þá verða stuðningsmenn Liverpool mjög ánægðir með hann,“ sagði Carragher en það má lesa allt viðtalið við hann hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×