Erlent

Samkomulag um að auka ríkisútgjöld um 500 milljarða dollara

Kjartan Kjartansson skrifar
Schumer (t.v.) og McConnell (t.h.) lýsa samkomulaginu sem vísi að þverpólitískri samstöðu sem hefur verið af skornum skammti á Bandaríkjaþingi síðustu árin.
Schumer (t.v.) og McConnell (t.h.) lýsa samkomulaginu sem vísi að þverpólitískri samstöðu sem hefur verið af skornum skammti á Bandaríkjaþingi síðustu árin. Vísir/AFP
Útgöld ríkissjóðs Bandaríkjanna aukast um 500 milljarða dollar næstu tvö árin samkvæmt samkomulagi sem leiðtogar repúblikana og demókrata hafa náð á Bandaríkjaþingi. Harðlínumenn úr röðum repúblikana finna samkomulaginu hins vegar flest til foráttu.

Frestur til að samþykkja áframhaldandi framlög til alríkisstofnana rennur út á miðnætti. Bandaríkjaþing hefur undanfarna mánuði ítrekað samþykkt bráðabirgðaráðstafanir til að halda rekstri þeirra gangandi eftir að þingheimi tókst ekki að ná samstöðu um fjárlög áður en síðasta fjárlagaári lauk í lok september.

Samkomulagið sem leiðtogar flokkanna tveggja hafa náð myndi binda enda á skammtímalausnir af því tagi í bili. Rekstur alríkisstjórnarinnar stöðvaðist að hluta til í þrjá daga í janúar þegar demókratar neituðu að fallast á skammtímafrumvarp til að reyna að knýja á um lausn fyrir innflytjendur sem voru fluttir ólöglega til Bandaríkjanna sem börn. Donald Trump forseti batt enda á DACA-áætlunina sem hefur varið þá fyrir brottvísun í fyrra og lýkur henni í byrjun mars.

Um nokkurn viðsnúning er að ræða af hálfu repúblikana sem hafa varið síðasta áratugnum í að tala fyrir ráðdeild í ríkisrekstri. Frumvarpið nú myndi auka enn á fjárlagahalla ríkissjóðs Bandaríkjanna.

„Nei, fjandinn hafi það“

Kveðið er á um stóraukin framlög til hermála sem Trump og repúblikanar hafa sóst eftir. Samkomulagið felur hins vegar einnig í sér aukin útgjöld til ýmissa málaflokka heima fyrir sem demókratar hafa krafist. Washington Post segir að samkomulagið njóti stuðnings Trump.

Búist er við því að öldungadeildin greiði fyrst atkvæði um frumvarp þessa efnis síðdegis eða snemmkveldis. Fulltrúadeildin hefði þá aðeins örfáar klukkustundir til að afgreiða frumvarpið áður en fresturinn rennur út á miðnætti.

Meirihluti er talinn fyrir frumvarpinu í öldungadeildinni en málið vandast þegar kemur að fulltrúadeildinni, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC. Þar eru fyrir á fleti harðlínumenn innan raða repúblikana sem eru andsnúnir auknum ríkisútgjöldum og vaxandi fjárlagahalla ríkisins.

Repúblikanar hafa þegar bætt við fjárlagahallann með umfangsmiklum skattabreytingum sem þeir samþykktu í desember. Frumvarpið nú myndi auka enn á hallann og lýsa sumir repúblikanar því sem „skrímsli“.

„Ég kýs ekki bara nei, ég kýs nei, fjandinn hafi það,“ segir Mo Brooks, fulltrúadeildarþingmaður repúblikana og félagi í svonefndum Frelsisþingflokki. Það er hópur um þrjátíu þingmanna í fulltrúadeildinni sem hefur gjarnan reynst forystu flokksins erfiður ljár í þúfu undanfarin ár.

Pelosi las upp sögur innflytjenda sem komu ólöglega til Bandaríkjanna sem börn í maraþonræðu á Bandaríkjaþingi í gær.Vísir/AFP
Frjálslyndir demókratar einnig með böggum hildar

Það eru þó ekki aðeins repúblikanar í fulltrúadeildinni sem eru ósáttir við samkomulagið. Sumir frjálslyndir demókratar hafa einnig lýst óánægju sinni með að forysta þeirra hafi fallið frá því að gera lausn fyrir skjólstæðinga DACA að skilyrði fyrir samþykkt fjárlaga.

Þannig setti Nancy Pelosi, leiðtogi demókrata í fulltrúadeildinni líklega met, þegar hún hélt átta klukkustunda langa ræðu um innflytjendamál í þingsal í gær. Þar hét hún því að fella fjárlagafrumvarp sem fæli ekki í sér vernd fyrir skjólstæðinga DACA.

Chuck Schumer, leiðtogi demókrata í öldungadeildinni, féllst á að samþykkja bráðabirgðafjárlög í síðasta mánuði eftir þriggja daga lokun alríkisstofnana gegn loforði frá Mitch McConnell, leiðtoga repúblikana, um að hann myndi láta greiða atkvæði um frumvarp um lausn fyrir DACA-skjólstæðinga.


Tengdar fréttir

Sló met með átta klukkutíma ræðu

Nancy Pelosi, leiðtogi Demókrata í neðri deild Bandaríkjaþings setti í dag ræðumet með rúmlega átta klukkutíma langri ræðu sinni þar sem hún mótmælti samkomulagi um fjárlög til næstu tveggja ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×