Íslenska landsliðið í fótbolta mætir Noregi í vináttuleik 2. júní á Laugardalsvelli en þetta kemur fram á vef KSÍ.
Leikurinn verður annar af tveimur kveðjuleikjum strákana okkar áður en þeir halda til Rússlands á HM 2018 þar sem Norðmenn verða ekki.
KSÍ hefur áður gefið það út að íslenska liðið mun spila tvo leiki heima í júní áður en strákarnir fljúga til Rússlands þar sem þeir eiga fyrsta leik gegn Argentínu 16. júní.
Lars Lagerbäck, fyrrverandi landsliðsþjálfari Íslands, snýr því aftur á Laugardalsvöllinn en hann er þjálfari Noregs í dag. Honum tókst ekki að koma Noregi á HM frekar en aðrir þjálfarar undanfarin 20 ár.
Aðeins er búið að staðfesta leikdag en leiktími og upplýsingar um miðasölu verða gefnar út síðar, að því fram kemur á vef KSÍ.
