Erlent

Ríkisstjóri sakaður um að kúga viðhaldið með nektarmyndum

Kjartan Kjartansson skrifar
Greitens er sagður hafa boðið hárgreiðslukonu sinni heim til sín árið 2015. Hann hafi síðan tekið nektarmyndir af henni eftir að hann batt hana niður og batt fyrir augu hennar.
Greitens er sagður hafa boðið hárgreiðslukonu sinni heim til sín árið 2015. Hann hafi síðan tekið nektarmyndir af henni eftir að hann batt hana niður og batt fyrir augu hennar. Vísir/AFP

Eric Greitens, ríkisstjóri Missouri í Bandaríkjunum, er í kröppum dansi vegna ásakana um að hann hafi hótað fyrrverandi hjákonu sinni því að birta nektarmyndir af henni af hún greindi frá sambandi þeirra. Hann viðurkennir að hafa haldið fram hjá konu sinni en neitar því að hafa kúgað hjákonuna.

Staðarsjónvarpsstöð greindi fyrst frá ásökununum en þær byggjast á upptöku sem fyrrverandi eiginmaður hjákonu Greitens gerði. Á henni heyrist hjákonan lýsa því hvernig Greitens hefði bundið hana á höndum og fyrir augu með hennar vilja. Hann hefði hins vegar síðan tekið myndir af henni og hótað að birta þær ef hún segði einhverjum frá sambandi þeirra.

Greitens og eiginkona hans sendu í kjölfarið frá sér yfirlýsingu í gærkvöldi þar sem þau viðurkenndu að ríkisstjórinn hefði gerst sekur um framhjáhald „fyrir nokkrum árum“. Þau minntust hins vegar ekkert á ásakanir um að Greitens hefði kúgað hjákonuna með nektarmyndum.

Lögmaður ríkisstjórans hafnaði þeim áskökunum hins vegar algerlega í annarri yfirlýsingu sem hann gaf út í kjölfarið. Þær ásakanir væru lygar.

Washington Post lýsir Greitens sem vonarstjörnu Repúblikanaflokksins. Hann er aðeins 44 ára gamall og var kjörinn ríkisstjóri árið 2016. Í kosningabaráttunni lagði hann áherslu á ímynd sína sem fjölskyldumanns. Framhjáhaldið átti sér stað árið 2015 en konan var hárgreiðslukonan hans.

Hjákonan sjálf hefur ekki verið nafngreind og hefur ekki vilja veita fjölmiðlum viðtal. Því höfðu staðarblöð sem vissu af ásökununum ekki greint frá þeim. Eftir yfirlýsingu ríkisstjórans sögðu þau hins vegar frá málinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×