Fótbolti

Andri Rúnar: Ekki lélegasta víti sem ég hef tekið

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Andri Rúnar Bjarnason spilaði sinn fyrsta A-landsliðsleik í dag þegar Ísland mætti Indónesíu ytra. Hann gerði enn betur og skoraði mark í leiknum, sitt fyrsta landsliðsmark, eftir að hafa klúðrað vítaspyrnu.

„Tilfinningin var bara frábær. Ég var með léttan fiðring og mjög spenntur, þetta var bara geðveik tilfinning,“ sagði Andri Rúnar við KSÍ eftir leikinn.

„Það var draumi líkast [að skora]. Mikill léttir eftir að vera búinn að klúðra vítaspyrnu að hafa náð að koma til baka og skora. Þetta var ekki lélegasta víti sem ég hef tekið, þetta var ágætlega varið hjá honum, hann má eiga það. En það er aldrei gaman að klúðra víti.“

Aðstæður í Indónesíu voru mjög erfiðar í dag og völlurinn blautur, þá sérstaklega í seinni hálfleik sem Andri spilaði ekki. Hann sagði þó að honum hefði fundist ágætt að fá að spila seinni hálfleikinn líka því hann væri öllu vanur.

„Maður er vanur Mýrarboltanum á Ísafirði svo það hefði verið fínt að taka þátt,“ sagði Andri léttur í brag. „Þetta var mjög sérstakt, pollar út um allt og erfiðar aðstæður, en við gerðum virkilega vel í seinni hálfleik og skorum fimm mörk í þessum aðstæðum, sem er virkilega vel gert.“

Þetta er í fyrsta skipti sem Andri Rúnar er í landsliðshópnum og hann er ánægður með móttökurnar sem hann fékk frá liðsfélögum sínum.

„Þeir hafa tekið manni rosalega vel. Það er léttir að geta komið inn í svona góðan hóp og fallið svona fljótt inn. Það er mjög jákvætt og mjög skemmtilegt, mikill heiður að vera með þeim,“ sagði Andri Rúnar Bjarnason.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×