Erlent

Stefán Karl segir bandarískri YouTube-stjörnu að skammast sín

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Stefán Karl Stefánsson biðlar til krakka um að hætta að vera áskrifendur að efni Logan Paul á YouTube.
Stefán Karl Stefánsson biðlar til krakka um að hætta að vera áskrifendur að efni Logan Paul á YouTube. vísir/andri marinó
Leikarinn Stefán Karl Stefánsson segir að bandaríska YouTube-stjarnan Logan Paul eigi að skammast sín fyrir að hafa birt myndband af líki manneskju sem hafði fyrirfarið sér á YouTube-rás sinni.

Stefán Karl bætist þannig í hóp fjölmargra sem hafa harðlega gagnrýnt Logan Paul fyrir að birta myndbandið. Hann var á ferðalagi í Japan með vinum sínum og hafði ráðgert að mynda ferð þeirra um Aokigahara-skóginn við rætur fjallsins Fuji.

Skógurinn er þekktur fyrir að vera vettvangur fjölda sjálfsvíga og gengu Logan og vinir hans fram á lík. Í myndbandi sem stjarnan birti mátti sjá að félögunum brá ansi mikið en þeir gerðu einnig grín að málinu. Myndbandið var sett inn á sunnudag og höfðu milljónir séð það áður en það var tekið út.

Stefán Karl tjáir sig um málið á Twitter-síðu sinni þar sem hann spyr sig hversu sjúkur viðkomandi þarf að vera til að birta slíkt myndefni til að fá fleiri fylgjendur á YouTube-rásina. Leikarinn biðlar síðan til krakka um að hætta að vera áskrifendur að efni Logan Paul á YouTube svo hann læri eitthvað af þessu.

Tíst Stefáns Karls hefur vakið mikla athygli en því hefur verið endurtíst hátt í þúsund sinnum og um 3200 Twitter-notendur hafa „lækað“ það.

Rúmlega fimmtán milljónir eru áskrifendur að YouTube-rás Logan Paul sem baðst afsökunar á birtingu myndbandsins á Twitter.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×