Erlent

Laga öryggisgalla í örgjörvum í kappi við tímann

Kjartan Kjartansson skrifar
Intel er einn stærsti framleiðandi örgjörva í heiminum.
Intel er einn stærsti framleiðandi örgjörva í heiminum. Vísir/AFP
Tölvuþrjótar gætu nýtt sér meiriháttar öryggisgalla í örgjörvum til að stela persónuupplýsingum eigenda tölva. Tæknifyrirtæki vinna nú í kapphlaupi við tímann að því að bæta gallana en upplýsingum um þá var lekið fyrr en til stóð.

Sérfræðingar Google fundu alvarlegan öryggisgalla sem nefnist „Spectre“ í örgjörvum frá Intel, AMD og ARM. Þá fannst annar galli sem nefndur hefur verið „Meltdown“ í Intel-örgjörvum. Fyrirtækin hafa vitað af göllunum um nokkurra mánaða skeið og hafa unnið að uppfærslum.

Breska ríkisútvarpið BBC segir alvanalegt að tæknifyrirtæki greini ekki frá öryggisgöllum af þessu tagi fyrr en búið er að lagfæra þá til að koma í veg fyrir að óprúttnir aðila notfæri sér þá. Í þessu tilfelli láku upplýsingarnar um gallana út áður en búið var að ráða bót á þeim. Intel segir að fyrirtækið hafi ætlað að gefa út uppfærslu í næstu viku til að lagfæra þá. Uppfærslna er að vænta á næstu dögum.

Sérfræðingar segja að tölvuþrjótar gætu nýtt sér galla til að lesa gögn í minni tölva og jafnvel komast yfir lykilorð eða dulmálskóða. Microsoft segist ætla að gefa út öryggiskerfauppfærslu í dag til að bregðast við gallanum. Apple er einnig sagt vinna að uppfærslu fyrir far- og borðtölvur sínar.

Gallarnir hafi fundist í örgjörvum allt að rúmlega tuttugu ára gamalla tölva.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×