Erlent

Leggja línurnar fyrir Pakistan

Samúel Karl Ólason skrifar
James Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, ræddi við yfirmann hers Pakistan, Qamar Javed Bajwa, í desember.
James Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, ræddi við yfirmann hers Pakistan, Qamar Javed Bajwa, í desember. Vísir/AFP
Bandaríkin hafa gert yfirvöldum í Pakistan ljóst hvað þurfi að gerast svo að hernaðaraðstoð til ríkisins verði haldið áfram. Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, frysti aðstoðina, sem samsvarar um 900 milljónum dala, í síðustu viku og sagði Pakistana ekki gera nóg gegn hryðjuverkastarfsemi þar í landi.

Aðstoðin felur einnig í sér hernaðarbúnað eins og farartæki og vopn sem eru metin á um milljarð dala.

Sjá einnig: Byrjar nýja árið á því að saka Pakistan um „lygar og svik“



„Bandaríkin hafa gert Pakistan ljóst hvaða skref hægt er að taka,“ sagði ofurstinn Rob Manning við blaðamenn í dag. „Væntingar okkar eru einfaldar. Leiðtogar Talibana og Haqqani og skipuleggjendur árása ættu ekki að finna skjól eða stýra árásum í Pakistan.“

„Við erum reiðubúin til að standa með Pakistan gegn hryðjuverkastarfsemi og áframhaldandi viðræður munu fara fram í einrúmi,“ sagði Manning.

Samkvæmt frétt AFP fréttaveitunnar hafa embættismenn í Bandaríkjunum átt von á því að mögulega myndu yfirvöld í Islamabad stöðva flutning olíu til herstöðva Bandaríkjanna á svæðinu. Manning sagði þó að útlit væri fyrir að svo væri ekki.

Pakistanar hafa setið undir ásökunum um að leyniþjónusta ríkisins og ákveðnir hópar innan hersins hafi lengi starfað með Talibönum og veitt þeim upplýsingar og hjálp. Pakistanar neita því þó.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×