Innlent

Trampólín tók á loft í Lindahverfi: Vaknaði við að glerbrotum rigndi yfir hann

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Björgunarsveitarmenn að störfum í Kópavogi í morgun.
Björgunarsveitarmenn að störfum í Kópavogi í morgun. Sigurður Ólafur Sigurðsson
Ungum pilti sem býr í Lindahverfi í Kópavogi var mjög brugðið þegar hann vaknaði í morgun við það að glerbrotum rigndi yfir hann. Ástæðan var sú að trampólín sem tekið hafði á loft í óveðrinu fauk á rúðuna í herbergi piltsins og braut hana. Pilturinn skarst við það að fá yfir sig glerbrotin og þurfti aðhlynningu á slysadeild.

Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir að þetta sé eina útkallið í óveðrinu í morgun þar sem trampólín kom við sögu. Skemmdirnar sem það olli séu áminning um að passa upp á að festa trampólín vel niður.

Fyrir utan að brjóta rúðuna í húsinu með fyrrgreindum afleiðingum fyrir unga piltinn skemmdi trampólínið þakkant og fór utan í einhverja bíla. Davíð segir að trampólínið hafi verið boltað niður en á endanum hafi boltarnir gefið sig.

Um klukkan tíu í morgun höfðu allir hópar frá björgunarsveitunum á höfuðborgarsvæðinu lokið við þau verkefni sem tengdust óveðrinu. Alls sinntu tæplega sjötíu björgunarsveitarmenn um fjörutíu verkefnum víða um höfuðborgarsvæðið en flest verkefnin voru fok á á lausamunum og lausar þakplötur og þakkantar.

Þá fóru nokkrar sveitir út í Reykjanesbæ og Grindavík í nótt. Þar var mest um lausar þakplötur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×