Erlent

Auðjöfur hættir hjá Repúblikanaflokknum vegna ásakana

Kjartan Kjartansson skrifar
Wynn hefur verið fjármálastjóri landsnefndar Repúblikanaflokksins og gefið í kosningasjóði flokksins.
Wynn hefur verið fjármálastjóri landsnefndar Repúblikanaflokksins og gefið í kosningasjóði flokksins. Vísir/AFP

Steve Wynn, auðugur spilavítiseigandi, hefur sagt af sér sem fjármálastjóri landsnefndar Repúblikanaflokksins. Hann hefur verið sakaður um kynferðislega áreitni og að hafa neytt starfsmann til að stunda kynlíf með honum. Sjálfur kennir hann fyrrverandi eiginkonu sinni um.



Wynn er 76 ára gamall en Wall Street Journal fjallaði um ásakanirnar gegn honum á föstudag. Þar kom meðal annars fram að hann hefði áreitt nuddara. Konur sem unnu fyrir hann hafi forðast að hitta hann og sumar jafnvel falið sig inni á salerni eða í skápum ef þær heyrðu að hann væri á leiðinni.



Þá greiddi Wynn nuddara 7,5 milljónir dollara sem sakaði hann um að hafa þvingað sig til að stunda kynlíf með honum, að því er kemur fram í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.



Segja að sama eigi að gilda um repúblikana og demókrata áður

Hann segir ásakanirnar „fáránlegar“ en hefur engu að síður sagt af sér hjá Repúblikanaflokknum. Hann telur að fyrrverandi eiginkona sín hafi komið „rógi“ um sig af stað en þau standa í hatrammri deilu fyrir dómstólum.



Málið er ekki síst neyðarlegt fyrir flokkinn því forsvarsmenn hans deildu hart á demókrata vegna máls kvikmyndaframleiðandans Harveys Weinstein. Hann hefur verið sakaður um fjölda brota gegn konum en hann hefur einnig látið mikið fé af hendi rakna til Demókrataflokksins í gegnum tíðina.



Repúblikanar gagnrýndu demókrata fyrir þögn um mál hans og kölluðu eftir því að þeir skiluðu fé sem Weinstein hafði gefið. Nú svara demókratar í sömu mynt og segja að það sama eigi að gilda um Repúblikanaflokkinn og Wynn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×