Erlent

Trump lýgur um áhorf

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. Vísir/Getty
Donald Trump fór með rangt mál á Twitter í dag þar sem hann sagði aldrei fleiri hafa horft á stefnuræðu forseta Bandaríkjanna. Trump sagði 45,6 milljónir manna hafa horft á ræðu hans á þriðjudaginn og að Fox hefði verið með fleiri áhorfendur en aðrar sjónvarpsstöðvar.

Allt þetta er rétt, fyrir utan það að aldrei hafi fleiri horft á stefnuræðu forseta. Það er fjarri lagi en þetta er alls ekki í fyrsta sinn sem Trump heldur því fram að eitthvað sem tengist honum sé stærst, fjölmennast, umfangsmest eða slíkt.

„Takk fyrir allar indælu athugasemdirnar og dómana um stefnuræðuna. 45,6 milljónir manna horfðu, mesta áhorf frá upphafi. Fox vann allar aðrar sjónvarpsstöðvar, í fyrsta sinn frá upphafi, þar sem 11,7 milljónir horfðu. Ræðan var flutt frá hjartanu!“

Fyrirtækið Nielsen, sem sér um að mæla áhorf, áætlar að 45,6 milljónir hafi horft á stefnuræðu Trump, eins og hann sjálfur hélt fram.



Hins vegar kemur fram á sömu síðu að rúmlega 52 milljónir horfðu á fyrstu stefnuræðu Barack Obama og 48 milljónir á aðra ræðu hans.

Þá horfðu tæplega 52 milljónir á aðra stefnuræðu George W. Bush og 62 milljónir á þriðju ræðuna hans.

Tæplega 67 milljónir horfðu á fyrstu stefnuræðu Bill Clinton. 45,8 milljónir horfðu á aðra ræðu hans og 53 milljónir á þá þriðju.

Mögulegt er að Trump hafi verið að horfa á Fox and Friends, eins og hann gerir oft, þegar hann tísti í dag. Þó um einn og hálfur tími hafi verið frá því þar mátti sjá hve margir hefðu horft endurspeglar tíst hans það sem fram kom þar.

Samkvæmt frétt Vox sló ræða Trump þó í gegn á Twitter. Starfsmenn samfélagsmiðilsins segja að alls hafi notendur tíst um 4,5 milljón sinnum um ræðuna og tíst um stefnuræðu aldrei verið fleiri.

Í ljósi þessa er vert að rifja upp það þegar Trump sendi þáverandi upplýsingafulltrúa sinn, Sean Spicer, á blaðamannafund og lét hann staðhæfa að „aldrei hefði fleiri mætt á innsetningarathöfn, PUNKTUR," en þegar Trump tók við embætti.

Það var svo sannarlega ekki rétt og var þetta í fyrsta sinn sem Spicer ræddi við blaðamenn eftir embættistöku Trump.

Politifact gaf þessari staðhæfingu Spicer lægstu mögulegu einkunn, sem nefnist „Pants on fire“.

Áhorfsmestu þættir Bandaríkjanna, eða ekki

Einnig er vert að rifja upp frétt Hollywood Reporter frá árinu 2015. Þá sagði Trump í sal fullum af sjónvarpsgagnrýnendum að raunveruleikaþættir hans Celebrity Apprentice væru með mesta áhorfið í Bandaríkjunum.

Eftir að honum var bent á að það væri nú ekki rétt, áréttaði hann að þátturinn væri með mest áhorf á mánudagskvöldum.

Það reyndist hins vegar ekki heldur rétt og var Trump bent á að þættirnir Mike and Molly fengju meira áhorf.

„Þetta er eitthvað sem ég hafði heyrt,“ sagði Trump og ypti öxlum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×