Frelsum Zehru Dogan
Listaverkið er hápólitískt en með veggjalistinni beinir hann spjótum sínum að yfirvöldum í Tyrklandi fyrir að hafa handtekið blaða-og listakonuna Zehru Dogan sem er Kúrdi, búsett í Tyrklandi.
Dogan var dæmd til rúmlega þriggja ára fangelsisvistar fyrir að mála kúrdíska fánann á byggingu sem var aðeins rústir einar. Tyrkneskir dómstólar mátu þetta sem svo að hún hafi haft í frammi „hryðjuverkaáróður“ með list sinni.
Ein hlið hússins er alþakin rimlum og á bak við nokkra þeirra er mynd af Zehru Dogan. Neðst til hægri stendur síðan „Frelsum Zehru Dogan“.

Í dag gerði Tyrkneski herinn, auk sýrlenskra uppreisnarmanna, áhlaup á Afrín-hérað í Sýrlandi en svæðið lýtur stjórn sýrlenskra Kúrda. Liðsmenn þjóðvarðsveitar Kúrda, YPG, hafa ýmist fallið eða þurft að hörfa.
Aðgerðirnar beindust einkum gegn YPG, sem Tyrkir segja að séu hryðjuverkasamtök. Um hundrað og fimmtíu þúsund almennra borgara hafa þurft að yfirgefa Afrín-hérað á síðustu dögum eftir að Tyrkneski herinn réðist til atlögu.
Óhefðbundið tjáningarform
Listaverk Banksy hafa prýtt veggi um heim allan en hann kýs að fara huldu höfði. Í viðtali frá því í sumar segir Hlynur Hallsson, listamaður og safnstjóri Listasafnsins á Akureyri, að Banksy hafi þurft að halda sig utan sviðsljóssins þar sem veggjalist væri „ekki beint“ lögleg.
„Veggurinn er almenningsrými og veggjalist felur í sér uppreisn eða mótþróa; eitthvað tjáningarform sem á sér ekki stað inn í listasafni heldur líka úti á götu. Fólk tekur því auðvitað öðruvísi,“ segir Hlynur.