Það verður tekið harðar á hegðun knattspyrnustjóranna á hliðarlínunni. Dómararnir munu ekki geta gefið stjórunum spjöld en þeir gefa viðvaranir. Fjórar viðvaranir þýða eins leiks bann, átta eru tveggja leikja bann og svo framvegis.
Bönn leikmanna breytast aðeins. Gul spjöld færast ekki á milli keppna; gult í úrvalsdeildinni telur ekki upp í bann í bikarkeppninni. Fimm uppsöfnuð gul spjöld þýða eins leiks bann. Rauð spjöld gilda hins vegar á allar keppnir, rautt í úrvalsdeildarleik þýðir bann í næsta leik á vegum enska knattspyrnusambandsins, sama í hvaða keppni það er.
Stærsta breytingin er líklega sú að nú má þjálfarateymið vera með spjaldtölvur eða snjallsíma á hliðarlínunni. Tækin verða notuð til þess að fara yfir klippur úr leiknum með varamönnum og skoða tölfræði og þess háttar.

Myndbandstæknin virkaði nokkuð vel á heimsmeistaramótinu í Rússlandi en forráðamenn ensku úrvalsdeildarinnar vilja ekki taka hana í notkun strax. Hún verður hins vegar notuð í öllum bikarleikjum á Englandi sem fara fram á úrvalsdeildarvöllum.
Í deildarbikarnum verður hætt að notast við framlengingar, leikir sem enda í jafntefli fara beint í vítaspyrnukeppni. Þá fer vítaspyrnukeppnin aftur í hefðbundið ABAB fyrirkomulag og hætt að notast við ABBA.
Félagsskiptaglugginn á Englandi lokaði í gær, í fyrsta skipti sem hann lokar áður en tímabilið hefst en ekki um mánaðarmótin. Liðin munu ræða þessa breytingu á næstu mánuðum.
Leikur Manchester United og Leicester verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport frá klukkan 18:50. Þrír leikir verða í beinni útsendingu á laugardag og tveir á sunnudag, þar á meðal stórleikur Arsenal og Manchester City.