Afganskir Talíbanar hafa lýst yfir þriggja daga löngu vopnahlé á meðan að Eid al-Fitr hátíðarhöldin vegna loka Ramadan standa yfir en AP greinir frá.
Í yfirlýsingu segir að vopnahléið beinist eingöngu gegn innlendum öflum, enn verði barist gegn erlendum aðilum og að gripið yrði til vopna ef árás yrði gerð á Talíbana.
Talíbanar gáfu einnig í skyn vilja sinn til að sleppa stríðsföngum, gegn því að þeir snúi ekki aftur á vígvöllinn.
Yfirlýsingin kemur í kjölfar ákvörðunar Ashraf Ghani, forseta Afganistan, að boða viku langt vopnahlé yfir hátíðarhöldin. Það vopnahlé gildir þó hvorki gegn íslamska ríkinu né al-Kaída.
Talsmaður forsetans, Mohammad Haroon Chakhansuri, fagnaði ákvörðun Talíbana og sagði að ríkisstjórn Afganistan muni gera allt í sínu valdi til að koma í veg fyrir frekari blóðsúthellingar í landinu, vonaðist hann eftir því að þessi skref myndi leiða til varanlegs friðar í landinu.
Talíbanar lýsa yfir vopnahléi í Afganistan
Andri Eysteinsson skrifar
