Harry Kane tryggði sér endanlega gullskóinn í ensku úrvalsdeildinni með þremur mörkum í 7-1 sigri Tottenham á Hull í lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar en leikmenn Hull gjörsamlega brotnuðu saman á lokasprettinum og fengu fjögur mörk á sig á tuttugu mínútna kafla.
Það var ljóst að hvorugt þessarra liða hafði að einhverju að keppa í dag en það stöðvaði ekki Tottenham-menn sem blésu til veislu til að ljúka besta tímabili félagsins í ensku úrvalsdeildinni.
Kane skoraði í tvígang í fyrri hálfleik og Dele Alli bætti við einu en Sam Clucas minnkaði muninn fyrir Hull á 66. mínútu leiksins. Victor Wanyama bætti við fjórða marki Tottenham stuttu síðar og Harry Kane innsiglaði sigurinn á 72. mínútu.
Varnarmennirnir Ben Davies og Toby Alderweireld bættu við sitt hvoru markinu og fullkomnuðu niðurlægingu Hull-manna sem fara niður með skottið á milli lappanna eftir eitt ár í deild þeirra bestu.
Meistararnir í Chelsea lentu undir snemma leiks gegn botnliði Sunderland í kveðjuleik John Terry en fimm mörk meistaranna tryggðu liðinu sigur. Javier Manquillo kom Sunderland yfir á 3. mínútu en mörk frá Willian, Eden Hazard, Pedro og Michy Batshuayi tryggðu Chelsea sigur.
Var þetta síðasti leikur John Terry fyrir félagið sem hann hefur verið á mála hjá í 22. ár en hann var tekinn af velli á 26. mínútu og stóðu leikmenn Chelsea heiðursvörð um hann er hann gekk af velli á Stamford Bridge sem leikmaður Chelsea í síðasta skiptið.
Þá vann Manchester United öruggan 2-0 sigur á Crystal Palace á heimavelli en nýliðinn Joshua Harrop sem fékk eldskírn sína í byrjunarliði Manchester United braut ísinn fyrir heimamenn áður en Paul Pogba bætti við.
Jose Mourinho hvíldi flestar af stjörnum sínum í leiknum fyrir leikinn gegn Ajax í úrslitum Evrópudeildarinnar á miðvikudaginn en Pogba og Jese Lingard komu af velli undir lok fyrri hálfleiks.
Jóhann Berg Guðmundsson kom inn af bekknum og nældi sér í gult spjald í 1-2 tapi Burnley á heimavelli gegn West Ham á Turf Moor en með sigri átti Burnley möguleika á því að lyfta sér upp í þrettánda sæti en nýliðarnir lentu í 16. sæti á fyrsta tímabili sínu í ensku úrvalsdeildinni.
Er það í fyrsta skiptið sem Burnley nær að halda sæti sínu í deild þeirra bestu í þriðju tilraun.
Þá vann Stoke City 1-0 sigur á útivelli gegn Southampton en Leicester City þurfti að sætta sig við stig í lokaumferðinni gegn Bournemouth á útivelli þar sem Ryan Allsop, fyrrum markvörður Hattar frá Egilsstöðum, þreytti frumraun sína í marki Bournemouth.
Kane með þrennu er Tottenham skoraði sjö | Terry kvaddur með sigri | Sjáðu mörkin
Tengdar fréttir

Liverpool sá um sitt og komst í Meistaradeildina
Liverpool tryggði sér þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu með 3-0 sigri á heimavelli gegn Middlesbrough í ensku úrvalsdeildinni í dag en með sigrinum endar Liverpool með 76 stig á fyrstu heilu leiktíð Jurgen Klopp með liðið.

Gylfi og félagar kláruðu tímabilið með þriðja sigrinum í röð | Sjáðu mörkin
Gylfi Þór Sigurðsson lék allan leikinn þegar Swansea City vann 2-1 sigur á West Brom í lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar í dag.

City-menn slátruðu Watford í lokaleik Mazzarri | Sjáðu mörkin
Manchester City gerði snemma út um leikinn í 5-0 sigri á Watford á Vicerage Road í kveðjuleik Walter Mazzarri sem þjálfari Watford en gestirnir skoruðu fjögur mörk strax í fyrri hálfleik og kláruðu leikinn.

Kane tryggði sér gullskóinn með átta mörkum í síðustu þremur leikjunum
Harry Kane skoraði flest mörk allra í ensku úrvalsdeildinni í vetur, eða 29 talsins.

Engin Meistaradeild hjá Arsenal á næsta tímabili | Sjáðu mörkin
Eftir 19 ár í röð í Meistaradeild Evrópu þarf Arsenal að gera sér Evrópudeildina að góðu á næsta tímabili.