Ekkert lið í ensku úrvalsdeildinni er með fleiri leikmenn innan sinna raða sem hafa unnið Meistaradeild Evrópu en Stoke City.
Stoke gekk í morgun frá eins árs lánssamningi á Jesé Rodríguez frá Paris Saint-Germain.
Jesé vann Meistaradeildina með uppeldisfélaginu Real Madrid 2014 og 2016. Stoke er nú með fleiri Evrópumeistara í leikmannahópi sínum en nokkurt annað lið í ensku úrvalsdeildinni.
Auk Jesé hafa Xherdan Shaqiri, Bojan Krkic, Ibrahim Afellay og Darren Fletcher unnið Meistaradeildina á ferlinum.
Stoke er með fleiri Evrópumeistara innan sinna raða en Manchester United, Arsenal og Liverpool samanlagt.
Chelsea er með næstflesta Evrópumeistara í sínum hóp, eða fjóra. Það eru þeir Pedro Rodríguez, Gary Cahill, Álvaro Morata og David Luiz. Cahill og Luiz unnu Meistaradeildina með Chelsea 2012.
Manchester City er með þrjá Evrópumeistara í sínum leikmannahóp, United tvo og Arsenal og Liverpool einn hvor.
Ekkert lið í ensku úrvalsdeildinni með fleiri Evrópumeistara en Stoke

Tengdar fréttir

Stoke fær fyrrverandi leikmann Real Madrid á láni
Spænski sóknarmaðurinn Jesé Rodríguez er genginn til liðs við Stoke City á eins árs lánssamningi frá Paris Saint-Germain.