Þetta er mikið áfall fyrir samfélagið, segir Jón Ragnarsson, sóknarprestur í Hveragerði. Ellefu ára drengur lést eftir hörmulegt slys skammt frá heimili hans í Hveragerði í gærkvöldi, og segir Jón mikla sorg ríkja í bænum.
Drengurinn, sem var einn að leik, klemmdist í vörulyftu á flutningabíl laust fyrir klukkan ellefu í gær. Tilraunir til endurlífgunar báru ekki árangur og var hann úrskurðaður látinn á vettvangi. Tildrög slyssins eru til rannsóknar hjá rannsóknardeild lögreglunnar á Suðurlandi og tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Líklega verður boðað til minningarathafnar vegna slyssins á morgun.

