Erlent

„Drepið frumvarpið" segja andstæðingar nýrrar skattalöggjafar Bandaríkjanna

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Skattafrumvarp repúblikana er óvinsælt á meðal bandarísks almennings. Hópur fólks mótmælti í Bandaríkjaþingi þegar atkvæðagreiðsla um það fór fram.
Skattafrumvarp repúblikana er óvinsælt á meðal bandarísks almennings. Hópur fólks mótmælti í Bandaríkjaþingi þegar atkvæðagreiðsla um það fór fram. Vísir/AFP
Andstæðingar umdeilds skattafrumvarps sem öldungadeild Bandaríkjaþings samþykkti í morgun létu vel í sér heyra við atkvæðagreiðsluna og hvöttu þingmenn til að fella frumvarpið. „Kill the bill,“ hrópuðu þeir í gríð og erg, eða „drepið frumvarpið.“ 

Líkt og greint var frá á Vísi í morgun samþykkti öldungadeild Bandaríkjaþings frumvarpið með 51 atkvæði repúblikana gegn 48 atkvæðum demókrata. Þannig hafa repúblikanar, með Donald Trump Bandaríkjaforseta í fararbroddi, stigið skrefinu nær róttækustu breytingum á skattkerfi landsins í áratugi.

Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, opnaði fyrir atkvæðagreiðslu í öldungadeildinni snemma í morgun en gagnrýnendur frumvarpsins segja fyrirtæki og hina efnameiri njóta góðs af frumvarpinu, á kostnað hinna tekjulægri.

Í röðum repúblikana er frumvarpinu þó vel fagnað og segja þeir að nýju lögin muni stuðla að hagvexti. Því eru ekki allir sammála, þvert á móti muni það auka fjárlagahalla ríkisins. Fulltrúadeild þingsins hafði þegar samþykkt frumvarpið, þó ekki vandræðalaust, en endurtaka þurfti atkvæðagreiðsluna vegna tæknilegra galla við frumvarpið.

Frumvarpið þykir mikill sigur fyrir repúblikana en auk víðtækra skattalækkana verður ákvæði um Obamacare fellt út úr skattalögum. Donald Trump, sem er harður andstæðingur heilbrigðislöggjafar forvera síns í embætti, segir það mikið fagnaðarefni. Hann mun að öllum líkindum staðfesta löggjöfina von bráðar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×