Innlent

Ráðherra segir vel hægt að leggja veginn um Teigsskóg

Kristján Már Unnarsson skrifar
Ekið niður Ódrjúgsháls í Gufudalssveit. Vegagerðin vill í staðinn að Vestfjarðavegur liggi um Teigsskóg.
Ekið niður Ódrjúgsháls í Gufudalssveit. Vegagerðin vill í staðinn að Vestfjarðavegur liggi um Teigsskóg. Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Nýr samgönguráðherra segist enn þeirrar skoðunar, eftir vettvangskönnun, að skynsamt sé að leggja Vestfjarðaveg um Teigsskóg en kveðst þó reiðubúinn að skoða aðra valkosti. Í fréttum Stöðvar 2 var rætt við Sigurð Inga Jóhannsson samgönguráðherra. 

Vegurinn um Ódrjúgsháls er með þeim sem heitast brenna á Vestfirðingum en á Stöð 2 var sýnt myndband, sem Patreksfirðingurinn Páll Vilhjálmsson tók í fyrradag, af flutningabíl í vandræðum á hálsinum. 

„Það er eitt af þessum brýnustu verkefnum sem stjórnvöld hafa að einhverju leyti heykst á að klára í allt of langan tíma. Það er svona eitt af því sem ég myndi vilja leggja áherslu á,“ segir Sigurður Ingi um Vestfjarðaveg um Gufudalssveit. 

Sigurður Ingi Jóhannsson, ráðherra vegamála.Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson.
Ráðherrann segir að nú sé beðið eftir því að Reykhólahreppur breyti aðalskipulagi. En hvaða skoðun hefur hann sjálfur á vegarlagningu um Teigsskóg? 

„Ég var nú umhverfisráðherra þegar við lögðum af stað í þetta verkefni. Mér fannst þær leiðir sem þá voru farnar vera skynsamar, það er að segja að reyna að fara þessar réttu skipulagsleiðir. Mér finnst við hafa lent einhvern veginn upp á skeri. 

Ég var á þeirri skoðun, - fór í vettvangsskoðun með þingflokki framsóknarmanna á sínum tíma, - að þarna væri vel hægt að fara í þessar framkvæmdir, á þann hátt sem þá var lagt upp með, - með mótvægisaðgerðum. Og ég hef svo sem ekkert skipt um skoðun hvað það varðar. 

En ég þarf auðvitað að fara yfir hvaða valkostum við stöndum frammi fyrir.“

Hreinn Haraldsson vegamálastjóri og Hanna Birna Kristjánsdóttir, þáverandi ráðherra vegamála, skoðuðu Teigsskóg árið 2013.Vísir/Daníel
Þegar spurt er hvort ráðherra telji unnt að fjármagna jarðgöng undir Hjallaháls á næstu árum bendir hann á að Dýrafjarðargöng verði tilbúin haustið 2020. Miðað hefur verið við að Seyðisfjarðargöng yrðu næst í röðinni en kæmi til greina að göng undir Hjallaháls yrðu tekin fram fyrir þau? 

„Það hefur verið planið, eins og þú réttilega nefnir, að Seyðisfjarðargöng, eða sem sagt vegbætur þangað, séu næstar í röðinni. Og ég hef ekki séð neina ástæðu til að breyta því. En þetta er eitt af þeim stóru verkefnum sem ég þarf að leggjast yfir.“ 

En gæti skipan nýs umhverfisráðherra úr röðum hörðustu andstæðinga Teigsskógarvegar breytt málinu, - að það verði kannski harðari andstaða frá Vinstri grænum? 

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, nýr umhverfisráðherra, var áður framkvæmdastjóri Landverndar.vísir/Ernir
„Nei, það held ég ekki. Ég held að allir ráðherrar, alveg sama hvað þeir hafa unnið við áður, vinni vinnu sína af fagmennsku og fylgi því sem við erum að gera í ríkisstjórninni,“ svarar samgönguráðherra. 

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir

Ný veglína raskar 6% af Teigsskógi

Ákvörðun Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra, um að reyna að koma Vestfjarðavegi í gegnum Teigsskóg, var fagnað á fundi Fjórðungssambands Vestfirðinga á Tálknafirði í dag.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.