Innlent

Ný veglína raskar 6% af Teigsskógi

Kristján Már Unnarsson skrifar
Ákvörðun Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra, um að reyna að koma Vestfjarðavegi í gegnum Teigsskóg, var fagnað á fundi Fjórðungssambands Vestfirðinga á Tálknafirði í dag. Vegagerðin ætlar að fara með nýja veglínu í umhverfismat sem gerir ráð fyrir helmingi minna raski á skóginum en áður var áformað. 

Nýr ráðherra vegamála notaði tækifærið á leið sinni vestur á firði til að sjá með eigin augum hinn umdeilda skóg, sem talinn er víðáttumesti birkiskógur Vestfjarða. Í fréttum Stöðvar 2 mátti sjá ráðherrann í fylgd Hreins Haraldssonar vegamálastjóra kynna sér væntanlega veglínu um skóginn.

Sennilega kemur það mörgum á óvart hversu lágvaxinn birkiskógurinn er, hæðin trjánna fer víðast hvar ekki mikið yfir einn metra, og Skógrækt ríkisins segir að þar sem birkikjarrið sé hæst sé meðalhæðin um tveir metrar.

Hreinn Haraldsson vegamálastjóri segir að farið verði með nýja veglínu í umhverfismat sem raski sex prósentum af skóglendinu, miðað við að fyrri áform gerðu ráð fyrir að tólf prósent myndu raskast.

Talsmaður landeigenda hefur þegar lýst því yfir að áfram verði barist fyrir verndun svæðisins. Fundarmenn á Tálknafirði í dag fögnuði hins vegar með lófaátaki stefnumörkun ráðherrans, að sögn Albertínu Elíasdóttur, formanns Fjórðungssambands Vestfirðinga.


Tengdar fréttir

Er hlynnt vegi um Teigsskóg

"Ég er hlynnt því að leggja veginn hér,“ sagði Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra þegar hún skoðaði sig um í Teigsskógi síðdegis í gær á leið sinni til fundar við Vestfirðinga um samgöngumál.

Leið um Teigsskóg í nýtt umhverfismat

Nýr ráðherra vegamála, Hanna Birna Kristjánsdóttir, er búin að snúa við ákvörðun forvera sín, Ögmundar Jónassonar, um Teigsskóg..




Fleiri fréttir

Sjá meira


×