Þrjátíu og þrjú skot Arsenal dugðu ekki til sigurs

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Manchester United vann 1-3 sigur á Arsenal í stórleik helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta.

Gestirnir úr norðrinu byrjuðu leikinn af krafti með tveimur mörkum á fyrstu tíu mínútunum. Antonia Valencia kom United yfir á 4. mínútu og Jesse Lingard tvöfaldaði forystuna á 11. mínútu.

Leikurinn var mjög fjörugur og stóð svo sannarlega undir nafni sem stórleikur. David de Gea þurfti að verja sjö skot í fyrri hálfleik í marki gestanna, en aðeins Jordan Pickford í marki Everton hefur þurft að verja fleiri skot í fyrri hálfleik á tímabilinu, en það var einmitt í leik gegn Arsenal.

United kom sofandi út úr búningsherbergjum og nýttu Arsenal menn sér það og klóruðu í bakkann á 49. mínútu.

Jesse Lingard skoraði aftur fyrir United á 65. mínútu eftir frábært einstaklingsframtak og róaði stuðningsmenn gestanna aðeins. Þeir gátu þó ekki setið rólega í sætum sínum því Arsenal var síógnandi. Heimamenn áttu 33 skot að marki í leiknum, og 15 þeirra á rammann.

Þeir náðu þó ekki að koma boltanum aftur í netið og fór United með sigur af hólmi.

Paul Pogba lét reka sig út af með rautt spjald á 74. mínútu eftir klaufalega tæklingu á Hector Bellerin sem hann var allt of seinn í. Það kom ekki að sök í þessum leik, en það sem verra er fyrir Jose Mourinho og hans menn að þá missir Frakkinn af grannaslagnum mikilvæga gegn Manchester City um næstu helgi.

Með sigrinum setti United pressu á City á toppnum og minnkaði forskotið niður í fimm stig. City á leik gegn West Ham á morgun. Arsenal er hins vegar í fimmta sæti deildarinnar, tólf stigum frá toppnum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira