Erlent

Geoffrey Rush víkur vegna ásakana

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Leikarinn Geoffrey Rush þvertekur fyrir ásakanirnar.
Leikarinn Geoffrey Rush þvertekur fyrir ásakanirnar. Vísir/afp

Ástralski leikarinn Geoffrey Rush  lét af embætti formanns Áströlsku kvikmyndaakademíunnar fáeinum dögum eftir að mikilsvirtu áströlsku leikfélagi barst ásökun um „ósæmilega hegðun“ leikarans, að því er fram kemur í frétt breska dagblaðsins The Guardian.

Rush þvertekur fyrir að hafa hegðað sér á ósæmilegan hátt við störf sín fyrir The Sydney Theatre Company, mikilsvirt leikfélag í Ástralíu. Fyrir um tveimur árum fór Rush með aðalhlutverk í uppsetningu leikfélagsins á Lé konungi en svo virðist sem ásakanirnar megi rekja til þeirrar sýningar.

Í tilkynningu, sem send var til fjölmiðla í dag, sagði Rush að hann teldi ósanngjarnt að samstarfsfólk hans yrði á einhvern hátt bendlað við ásakanir á borð við þær sem gefnar hafa verið út á hendur honum. Þá sagði Rush það hafa verið erfiða ákvörðun að stíga til hliðar sem formaður áströlsku kvikmyndaakademíunnar en taldi tafarlausa afsögn hið rétta í stöðunni „þangað til málið hefur verið leyst.“

Talið að leikkona hafi sakað Rush um áreitni

Ekki hafa fengist frekari upplýsingar frá The Sidney Theatre Company um ásakanirnar eða eðli hinnar „ósæmilegu hegðunar“ sem Rush er sakaður um. Samkvæmt tilkynningu frá leikfélaginu vill umkvörtunaraðilinn að trúnaður ríki um meðferð málsins og að Rush verði ekki viðriðinn frekari rannsókn.

Samkvæmt fjölmiðlum í Ástralíu sakaði leikkona, sem starfaði við uppsetningu leikfélagsins á Lé konungi, Rush um að hafa snert sig á óviðeigandi hátt.

Rush hefur starfað sem leikari hjá The Sidney Theatre Company í 35 ár. Rush, sem er 66 ára gamall, hlaut Óskarsverðlaun árið 1997 fyrir leik sinn í kvikmyndinni Shine og hefur þess utan verið tilnefndur þrisvar til verðlaunanna. Hann er þó einna þekktastur fyrir hlutverk sitt sem Barbossa kapteinn í Pirates of the Caribbean-kvikmyndaseríunni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×