Erlent

Forsætisráðherrann sagður fangi Sádi-Araba

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Saad al-Hariri, fráfarandi forsætisráðherra Líbanons.
Saad al-Hariri, fráfarandi forsætisráðherra Líbanons. Nordicphotos/AFP
Líbanska ríkisstjórnin telur að Saad al-Hariri, fráfarandi forsætisráðherra Líbanons sem tilkynnti um afsögn sína um síðustu helgi, sé haldið gegn vilja sínum í Sádi-Arabíu. Þetta hefur CNN eftir heimildarmönnum sínum innan ríkisstjórnarinnar.

Vitnaði bandaríski miðillinn í gær í ónefndan heimildarmann sem sagði al-Hariri ekki fá að tjá sig frjálslega í samskiptum sínum við ríkisstjórnina, sem alla jafna er hliðholl Sádi-Arabíu. Jafnframt vissi ríkisstjórn Líbanons ekkert hvað væri á seyði.

Fjölmargir miðlar greindu frá því í vikunni, og höfðu eftir nafnlausum heimildarmönnum, að al-Hariri hefði ekki sagt af sér af fúsum og frjálsum vilja. Sádi-Arabar hefðu neytt hann til þess vegna meints árangursleysis í baráttunni við Hezbollah-samtökin. Er hin meinta afsagnarþvingun sögð liður í eins konar köldu stríði Sádi-Arabíu og Írans en Hezbollah eru á bandi Írana.

CNN hélt því fram að ummæli hins nafnlausa heimildarmanns væru líkleg til þess að valda titringi innan sádiarabísku ríkisstjórnarinnar. Ráðamenn þar í landi neita því að hafa þvingað al-Hariri til að segja af sér og að halda honum þar í landi gegn vilja sínum.

Al-Hariri er með tvöfalt ríkisfang. Auk þess að vera líbanskur ríkisborgari er hann einnig með sádiarabískt ríkisfang. Hann á hús í Riyadh, höfuðborg Sádi-Arabíu, þar sem talið er að hann dvelji um þessar mundir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×