Innlent

Þingmenn Pírata aðstoða 1984 í björgunarstarfinu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Helgi Hrafn Gunnarsson og Smári McCarthy eru hluti af teyminu sem 1984 reiðir sig á.
Helgi Hrafn Gunnarsson og Smári McCarthy eru hluti af teyminu sem 1984 reiðir sig á. Mynd/1984
Þingmenn Pírata, þeir Helgi Hrafn Gunnarsson og Smári McCarthy, hafa aðstoðað vefhýsingafyrirtækið 1984 í því að bjarga því sem bjargað verður eftir kerfishrun hjá fyrirtækinu í síðustu viku.

„Þeir eru fyrst og fremst hér vegna þess að þeir eru gríðarlega færir tæknimenn. Þingmennskan skiptir engu máli hér,“ segir Mörður Ingólfsson, framkvæmdastjóri 1984 í samtali við Vísi en fyrirtækið birti mynd af þingmönnunum að störfum á skrifstofum 1984 á Twitter.

Mörður segir að þeir félagar, sem störfuðu á árum áður hjá 1984, séu í sjálfboðavinnu við björgunarstarfið. Sjö til tólf manns koma að starfinu hjá 1984 um þessar mundir.

Fyrirtækið hýsir þúsundir vefja en bilun í vélbúnaði hefur gert það að verkum að fjölmargir íslenskir vefir og póstþjónusta liggur niðri. Unnið hefur verið sleitulaust undanfarna daga að björgunarstarfi.

Mörður segir ljóst að mikil vinna sé framundan sem muni taka langan tíma en að vonir standi til að eftir daginn verði helmingur vefsvæða kominn upp að nýju.

Ekkert liggur fyrir um hvað olli biluninni en Mörður segir að það sé ekki forgangsatriði eins og er , það mikilvægasta sé að koma hlutunum í lag á nýjan leik.

„Við erum ekki að spá í neitt annað en að koma vefsvæðunum, tölvupóstunum og þjónustu upp fyrir okkar notendur. Þegar við erum búnir að því spáum við í öðrum hlutum. Það er ekkert annað sem kemst að núna.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×