Vefhýsingafyrirtækið 1984 hefur tilkynnt að neyðartölvupóstþjónusta hjá fyrirtækinu verði komin í gagnið um hádegisbilið í dag. Þar fá tölvupóstnotendur aðgang að nýjum tölvupóst og tölvupósti sem hefur borist frá því að þjónustur fyrirtækisins stöðvuðust. Eldri póstur verður aðgengilegur þegar öll gögn hafa verið sett upp úr afritum.
Mörður Ingólfsson, framkvæmdastjóri 1984, segir að það muni taka nokkra daga að gera eldri tölvupóst aðgengilegan. „Við sitjum bara við þetta alveg stanslaust. Þess vegna setjum við upp þessa neyðarpóstþjónustu svo menn séu ekki tölvupóstlausir,“ segir Mörður.
Fyrirtækið hýsir þúsundir vefja en bilun í vélbúnaði hefur gert það að verkum að fjölmargir íslenskir vefir og póstþjónusta liggur niðri.
Bilunin hefur staðið yfir frá því á miðvikudagskvöld en Mörður segir orsökin ekki liggja fyrir. Meginmarkmið starfsmanna fyrirtækisins sé að koma hlutunum í lag og því mæti rannsókn á orsökum bilunarinnar afgangi enn sem komið er.
Hann segir einhverja vefi vera komna í loftið og það muni gerast hægt og rólega. „Við látum ganga fyrir ákveðna vinnu og reynum að koma nauðsynlegum upplýsingum út. Hér er bara unnið dag og nótt.“
1984 setur upp neyðartölvupóstþjónustu

Tengdar fréttir

Vefsíður fjölmargra íslenskra fyrirtækja liggja niðri
Vélbúnaðarbilun hjá 1984, einu stærsta hýsingarfyrirtæki landsins, hefur valdið því að fjölmargar íslenskar vefsíður og póstþjónusta liggur niðri og hefur gert síðan í gær.

Bilun hjá 1984: „Gríðarlega alvarlegt mál“
"Það verður rannsóknarefni bæði fyrir okkur og þann sem selur og þjónustar búnaðinn.“